Körfubolti

Kobe innvígður í frægðarhöll NBA-deildarinnar í haust

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kobe verður tekinn inn í frægðarhöll NBA-deildarinnar þann 29. águst.
Kobe verður tekinn inn í frægðarhöll NBA-deildarinnar þann 29. águst. Vísir/NBA

Kobe Bryant heitinn er einn þeirra átta sem verða tekin inn í frægðarhöll NBA þann 29. ágúst næstkomandi.

Kobe lést langt fyrir aldur fram í skelfilegu þyrluslysi í febrúar á þessu ári. Er hann einn besti leikmaður NBA-deildarinnar frá upphafi og ljóst að fáir eiga meira skilið að vera innvígðir í frægðarhöll deildarinnar.

Er hann stærsta nafnið sem verður tekið inn í frægðarhöllina að þessu sinni en listinn er þó ekki af verri endanum. Ásamt Kobe verða Kevin Garnett, Tim Duncan, Tamika Catchings, Kim Mulkey, Barbara Stevens, Eddie Sutton og Rudy Tomjanovich öll tekin inn í höllina.

Í viðtali við ESPN sagði Vanessa Bryant, ekkja Kobe, að þetta væri hápunkturinn á NBA ferli hans og öll afrek Kobe á vellinum hefðu í raun verið hluti af áætlun hans um að fá inngöngu í frægðarhöllina.

„Engin orð geta lýst því hvað Kobe Bryant var fyrir Los Angeles Lakers,“ sagði Jeanie Buss, eigandi og forseti Lakers í yfirlýsingu félagsins þegar ljóst var að Kobe hlotið inngöngu í frægðarhöllina.

„Keppnisskap og drifkraftur Kobe var eitthvað sem átti sér engan líkan. Enginn á meira skilið að vera valinn í frægðarhöll NBA-deildarinnar heldur en hann,“ sagði Jeanie að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×