Erlent

668 sjó­liðar á frönsku her­skipi smitaðir

Atli Ísleifsson skrifar
Franska flugmóðurskipið Charles de Gaulle. 
Franska flugmóðurskipið Charles de Gaulle.  AP

Þriðjungur sjóliða á franska flugvélamóðurskipinu Charles de Gaulle, 668 af nærri tvö þúsund, hafa greinst með kórónuveirusmit. Skipinu var snúið fyrr til hafnar í Toulon á suðurströnd landsins, eftir að hafa verið við æfingar á Atlantshafi.

Í yfirlýsingu frá franska hersnum segir að tuttugu sjóliðanna séu nú á sjúkrahúsi og þar af er einn þeirra á gjörgæslu.

Mynd úr skipinu.AP

Líklegt er talið að fjöldi smita meðal sjóliða komi til með að hækka þar sem enn á eftir að fá niðurstöðu úr nærri 30 prósent þeirra sýna sem tekin hafa verið.

Í frétt BBC segir að franski sjóherinn rannsaki nú hvers vegna svo margir sjóliðanna hafi smitast af veirunni. Allir um borð í Charles de Gaulle hafa nú verið settir í sóttkví.

Alls hafa um 148 þúsund smit greinst í Frakklandi og eru dauðsföll sem rakin eru til Covid-19 nú 17.167. Talsmaður franskra heilbrigðisyfirvalda sagði í gær að 6.457 manns væru nú á gjörgæslu vegna veirunnar, 273 færri en daginn áður.

Strangar reglur eru nú í gildi í Frakklandi vegna veirunnar, en Emmanuel Macron hefur tilkynnt að útgöngubann hafi verið framlengt til 11. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×