Enski boltinn

Rifjuðu upp þegar gamli Eyjamarkvörðurinn fór í sóknina í leik í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David James hætti að vera markvörður Manchester City og skiptir bæði um stöðu og treyju þegar Stuart Pearce sendir hann fram í sóknina í leik Manchester City og Middlesbrough.
David James hætti að vera markvörður Manchester City og skiptir bæði um stöðu og treyju þegar Stuart Pearce sendir hann fram í sóknina í leik Manchester City og Middlesbrough. Getty/ Richard Heathcote

David James átti langan og viðburðaríkan feril enda sá markvörður sem hefur spilað flesta leiki í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Hann átti líka eftir að spilað á Íslandi og í Indlandi áður en ferillinn var búinn.

Það var langt frá því að vera fyrsta ævintýrið hjá markverðinum David James þegar hann mætti til Vestmannaeyja sumarið 2013 til að spila með ÍBV í íslensku Pepsi-deildinni.

Á þessum degi fyrir fimmtán árum, eða 15. maí 2005, var James miðpunktur í furðulegri tilraun þegar knattspyrnustjórinn hans ákvað að senda markvörðinn sinn í sóknina.

Þegar tvær mínútur voru eftir af leik Manchester City og Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni þá var staðan 1-1. Stuart Pearce, þá knattspyrnustjóri Manchester City, sá ástæðu til að prófa eitthvað alveg nýtt.

Hann kallaði á varamarkvörðinn sinn, Nicky Weaver, og skipti honum inn á völlinn. Hann tók samt ekki markvörðinn sinn útaf heldur miðjumanninn Claudio Reyna.

David James kom reyndar út að hliðarlínunni og skipti um treyju, fór úr markmannstreyju númer eitt og í útileikmannatreyju númer eitt. Það fór ekki á milli mála að þetta var skipulagt.

David James er 194 sentimetrar á hæð og átti þarna að skapa usla í vörn Middlesbrough liðins. Fljótlega kom þó í ljós af hverju hann spilaði í markinu en ekki út á velli því James greyið var hreinlega eins og fíll í postulínsbúð.

Hann náði að sparka niður tvo í klaufalegri tæklingu og hitti ekki boltann í góðu skotfæri. Þetta voru langt frá því að vera hans bestu mínútur í boltanum.

Manchester City fékk reyndar vítaspyrnu, kannski voru leikmenn Middlesbrough svo hissa og stuðaðir að sjá James mæta í sóknina að einn þeirra fékk boltann upp í hendina. Robbie Fowler lét hins vegar verja frá sér vítið og leikurinn endaði með jafntefli.

David James lék á sínum tíma 572 leiki í ensku úrvalsdeildinni og 53 landsleiki fyrir England. Hann spilaði með ÍBV sumarið 2013 en þá var Hermann Hreiðarsson þjálfari Eyjaliðsins. James fékk á sig 20 mörk í 17 leikjum og hélt fjórum sinnum marki sínu hreinu. Eyjaliðið endaði í sjötta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×