Erlent

Níu ríki Bandaríkjanna undirbúa afléttingu hafta

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Götur New York borgar eru nánast mannlausar en borgin hefur orðið mjög illa úti í kórónuveirufaraldrinum.
Götur New York borgar eru nánast mannlausar en borgin hefur orðið mjög illa úti í kórónuveirufaraldrinum. EPA/JASON SZENES

Níu ríki Bandaríkjanna tilkynntu í dag að vinna sé hafin við að undirbúa afléttingu þeirra hafta sem sett hafa verið til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Þá sé vinna einnig hafin til að koma efnahagslífi þeirra aftur á réttan kjöl. Frá þessu er greint á vef fréttastofu Reuters.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, sagði í dag að Norðausturríkin New York, New Jersey og Connecticut muni vinna með Delaware, Pennsylvania og Rhode Island að því að samhæfa þau skref sem verða tekin á næstunni við að koma efnahagslífi aftur í réttan farveg.

„Enginn hefur verið í þessari stöðu áður, enginn er með öll svörin,“ sagði Cuomo á opnum fjarskiptafundi með ríkisstjórum hinna fimm ríkjanna. „Varðandi heilsu almennings og efnahaginn: hvort kemur á undan? Þessir tveir hlutir eru báðir í forgangi.“

Þá tilkynntu ríkisstjórar Kaliforníu, Oregon og Washington að þeir hefðu einnig komist að samkomulagi um samhæfðar aðgerðir við enduropnun fyrirtækja, þótt þeir hafi ekki kynnt nákvæma tímalínu og sögðu að heilsa almennings myndi stjórna áætlunum.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagði fyrr í dag að allar ákvarðanir um að koma efnahagslífi aftur af stað væru í hans höndum.

Streita milli ríkisstjóra og Trumps hefur verið mikil síðan faraldurinn versnaði í Bandaríkjunum fyrir um mánuði síðan og hefur hún verið sérstaklega áberandi í umræðunni um efnahagslíf ríkjanna.

Lagasérfræðingar vestanhafs hafa bent á það að Bandaríkjaforseti hafi takmörkuð völd samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna til að skipta sér af atvinnu- og efnahagsmálum í ríkjum. Hann geti ekki skipað íbúum ríkja að snúa aftur til starfa, borgum að opna opinberar stofnanir á ný, eða að skipa almenningssamgöngum eða fyrirtækjum að hefja aftur þjónustu.

„Það er ákvörðun forsetans og liggja þar margar góðar ástæður að baki,“ skrifaði Trump á Twitter á mánudag. Þá bætti hann því við að ríkisstjórn hans ynni náið með ríkisstjórunum.

„Ákvörðun mín, sem verður tekin í samstarfi við ríkisstjóra og aðra, verður tilkynnt fljótlega!“ sagði Trump á Twitter.

Pólitískir leiðtogar hafa hamrað á því að ákvörðun um að opna á efnahagslífið á ný verði að vera tekin í samræmi við þróun faraldursins. Þeir hafa einnig varað við því að aflétta útgöngubanni of fljótt enda gæti það valdið því að faraldurinn verði enn verri. Ríkisstjórn Trump hefur gefið það í skyn að aflétting hafta muni hefjast þann 1. maí næstkomandi.


Tengdar fréttir

Tíundi hver Bandaríkjamaður hefur misst vinnuna

Tíundi hver vinnufær Bandaríkjamaður hefur misst vinnuna síðan stjórnvöld þar í landi fóru í víðtækar aðgerðir til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar. Alls hafa 16,8 milljónir manna sótt um atvinnuleysisbætur á síðustu þremur vikum, samkvæmt tölum Vinnumálaráðuneytisins í Washington.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×