Íslenski boltinn

Yfirlýsing frá ÍA: Stefna á að vinna sig út úr miklum vanda í góðri sátt við leikmenn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir Þorsteinsson er nýtekinn við stjórnartaumunum hjá Knattspyrnufélagi ÍA.
Geir Þorsteinsson er nýtekinn við stjórnartaumunum hjá Knattspyrnufélagi ÍA. vísir/daníel

Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Vísis um launamál leikmanna liðsins. Í fréttinni kom fram að laun leikmanna ÍA hafi verið lækkuð verulega án samráðs við þá.

Í yfirlýsingunni segir að í neyð hafi Knattspyrnufélag ÍA þurft að bregðast skjótt við erfiðum aðstæðum til að vernda starfsemi þess. Stjórn KFÍA hafi nýtt sér úrræði stjórnvalda um hlutabætur fyrir starfsmenn, leikmenn og þjálfara.

Í yfirlýsingunni segir að leikmenn ÍA hafi verið boðaðir til fundar 28. mars þar sem þeim voru kynntar neyðaraðgerðir félagsins. Síðan hafi verið virkt samtal milli nokkurra fulltrúa leikmanna og stjórnar.

Fram kemur að samningsbundir leikmenn hafi fengið leiðbeiningar um skráningu hjá Vinnumálastofnun og KFÍA hafi á þessari stundu ekki samið við leikmenn sína um skerðingu frá gerðum samningum.

Þá segir einnig að félagið muni leitast eftir því að ná samkomulagi við leikmenn þegar ýmsar forsendur liggja fyrir. Er þar átt við rekstrarforsendur, hvenær æfingar hefjast á ný og hvernig mótahaldi verður háttað.

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Knattspyrnufélag ÍA hefur í neyð orðið að bregðast hratt við erfiðum aðstæðum til að vernda starfsemi félagsins á krefjandi tímum. Stjórn Knattspyrnufélagsins ÍA ákvað að nýta sér úrræði stjórnvalda um hlutabætur fyrir starfsmenn, þjálfara og leikmenn félagsins en allt knattspyrnustarf hefur legið niðri frá því um miðjan mars skv. fyrirmælum yfirvalda um samkomubann. Allir leikmenn meistaraflokks karla voru boðaðir til fundar 28. mars sl. þar sem tilkynnt var um neyðaraðgerðir félagsins og síðan hefur verið virkt samtal milli nokkurra fulltrúa leikmanna og stjórnar. Samningsbundnir leikmenn félagsins fengu leiðbeiningar um skráningu hjá Vinnumálastofnun, en rétt er að taka fram að á þessari stundu hefur Knattspyrnufélag ÍA ekki samið við leikmenn sína um skerðingu frá gerðum samningum. Þá skal þess getið að samningar við leikmenn eru einstaklingsbundnir og mun félagið leita eftir samkomulagi við leikmenn þegar forsendur liggja fyrir eins og hvenær æfingar hefjast á nýjan leik, hvernig mótahaldi verður háttað og hvaða rekstrarforsendur blasi þá við. Knattspyrnufélag ÍA stefnir að því að vinna sig út úr miklum vanda í góðri sátt við starfsmenn, þjálfara og leikmenn félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×