Enski boltinn

Segir að það sé ekki vænlegt fyrir Everton að selja Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fær vonandi tækifæri til að komast aftur á skrið og fara að skora og leggja upp mörk fyrir Everton liðið. Hér fagnar hann marki í fyrra.
Gylfi Þór Sigurðsson fær vonandi tækifæri til að komast aftur á skrið og fara að skora og leggja upp mörk fyrir Everton liðið. Hér fagnar hann marki í fyrra. Getty/Dan Mullan

Gamall enskur landsliðsmarkvörður hefur skoðun á stöðu Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton og er sannfærður um að Everton vilji ekki selja íslenska lanssliðsmanninn fyrir miklu minna en liðið keypti hann á.

Paul Robinson, fyrrum landsliðsmarkvörður Englands, vill þess í stað að Carlo Ancelotti færi Gylfa Þór Sigurðsson aftur framar á völlinn.

Robinson spáir því að Everton muni ekki selja Gylfa Þór Sigurðsson í sumar eins og enskir fjölmiðlar hafa skrifað svo mikið um að undanförnu.

„Ancelotti hefur verið sanngjarn og gefið leikmönnum Everton tækifæri til að sýna sig og sanna. Hann hefur leyft þeim að fá hálft tímabil og lét leikmannamarkaðinn alveg vera í janúar. Hann mun örugglega skoða vel hvað hann er með í höndunum,“ sagði Paul Robinson við Dylan Childs hjá Football Insider.

Gylfi er enn dýrasti leikmaður í sögu Everton en félagið borgar 45 milljónir fyrir hann í september 2017.

„Þeir borguðu eitthvað um 50 milljónir punda fyrir hann, en ég held að þeir muni ekki fá nálægt þeirri upphæð ef þeir reyna að selja hann núna. Það er eitthvað sem knattspyrnustjórinn verður að skoða," sagði Robinson við Dylan Childs hjá Football Insider.

Gylfi hefur aðeins skorað eitt mark og fengið skráðar tvær stoðsendingar á þessu tímabili sem er mikið ekki síst þar sem hann var með 13 mörk og 6 stoðsendingar á tímabilinu á undan.

„Það er enginn vafi um að það eru mikil gæði í honum. Hann er marksækinn sóknarmiðjumaður og ef þú spilar honum framarlega á vellinum þá getur hann enn skilað sínu," sagði Robinson.

Gylfi verður 31 árs seinna á þessu ári en samningur hans við Everton rennur út eftir tvö ár.

„Ég býst við því að hann verði áfram því það er ekki vænlegt fjárhagslega fyrir Everton að selja hann á mikið lægri upphæð en hann var keyptur fyrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×