Enski boltinn

Íslandsvinurinn valdi formúlu eitt frekar en ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe.
Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe. Getty/Bryn Lennon

Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe hefur bæði mikinn áhuga á íslenskum jörðum og fótbolta. Hann hefur safnað jörðum á Íslandi en ætlar ekki að kaupa fleiri fótboltafélög. Hann fjárfesti aftur á móti ríkulega í formúlu eitt á dögunum.

Jim Ratcliffe er nú talinn vera ríkasti maður Bretlandseyja en hann er stofnandi og stjórnarformaður efnafyrirtækisins INEOS. INEOS gekk nýverið frá fimm ára samningi við formúlu eitt liðið Mercedes.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið segir Jim Ratcliffe hafi nú nóg á sinni könnu og að hann sé ekki að hugsa um kaupa sig inn í ensku úrvalsdeildina.



Ratcliffe er mikill fótboltaáhugamaður og á franska félagið Nice, sem hann keypti í ágúst sem og svissneska b-deildarliðið Lausanne.Hann hefur lengi verið orðaður við kaup á liði í ensku úrvalsdeildinni, fyrst við sitt uppáhaldslið Manchester United en svo við Chelsea.

Jim Ratcliffe útilokar það að kaupa sig inn í ensku úrvalsdeildina, bæði vegna þess að hann hafi þegar of mikið að gera og líka vegna þess að verðmiðinn á liðum í ensku úrvalsdeildinni sé alltof hár.

„Við erum mjög sátt við þar sem við erum með Nice. Það gengur vel og hefur verið mjög áhugavert. Við erum enn að læra og þetta er krefjandi deild í Frakklandi með mörgum hæfileikaríkum leikmönnum,“ sagði Jim Ratcliffe.

Ratcliffe var að kaupa sig inn í Mercedes liðið í formúlu eitt þegar það stendur mögulega á tímamótum. Ástæðan er að heimsmeistarinn Lewis Hamilton er ekki búinn að festa sig. Lewis hefur unnið fimm af sex heimsmeistaratitlum sínum með Mercedes liðinu.



Ratcliffe yrði hissa ef Lewis Hamilton fær frá Mercedes á þessum tímapunkti.

„Ég held að Lewis sé einn sá allra besti frá upphafi í þessari grein. Það hafa ekki margir betri ökumenn en hann. Ef ég væri Lewis þá myndi ég einbeita mér að því að vinna titil númer sjö og ná að jafna [Michael] Schumacher og gera það með farsælasta liðinu. Þetta er samt auðvitað ákvörðun Lewis en ekki mín en það kæmi mér á óvart ef hann færi,“ sagði Sir Jim Ratcliffe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×