Erlent

Þvertekur fyrir að hafa komið að „innrásinni“ undarlegu

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump sagði í dag að ef Bandaríkin gripu til aðgerða í Venesúela yrði það gert með öðruvísi hætti. Það yrði raunveruleg innrás og alvöru her yrði sendur.
Trump sagði í dag að ef Bandaríkin gripu til aðgerða í Venesúela yrði það gert með öðruvísi hætti. Það yrði raunveruleg innrás og alvöru her yrði sendur. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekaði í dag að hann eða ríkisstjórn hans hafi ekki komið að misheppnaðri uppreisn í Venesúela. Tveir bandarískir menn voru handteknir og hefur Nicolas Maduro, forseti Venesúela, haldið því fram að „innrásin“ hafi verið gerð undir stjórn Trump.

Trump sagði þó í dag að ef Bandaríkin gripu til aðgerða í Venesúela yrði það gert með öðruvísi hætti. Það yrði raunveruleg innrás og alvöru her yrði sendur.

„Ég færi þarna inn og þeir myndu ekki gera neitt við því. Þeir myndu velta sér á bakið. Ég myndi ekki senda lítinn hóp. Nei, nei, nei. Það yrði kallaður her. Það yrði kallað innrás,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Trump.

Sjá einnig: Undarlegir og misheppnaðir uppreisnartilburðir

Þegar Trump var spurður hvort hann myndi ná Bandaríkjamönnunum tveimur aftur til Bandaríkjanna, svaraði hann ekki spurningunni. Hann sagði að þetta hefði ekki verið góð árás og hún hefði greinilega ekki verið leidd af George Washington.

Þá sagðist hann ætla að kynna sér málið frekar.

Fyrr í vikunni sögðust bandarískir embættismenn ætla að gera allt sem þeir gætu til að ná mönnunum heim.

Mennirnir tveir, sem heita Luke Denman og Airan Berry, hafa verið ákærðir fyrir valdaránstilraun og stendur til að rétta yfir þeim í Venesúela.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×