Erlent

Systkini Hagen telja Anne-Elisabeth vera enn á lífi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan hefur rannsakað heimili Hagen-hjónanna í vikunni.
Lögreglan hefur rannsakað heimili Hagen-hjónanna í vikunni. EPA/TERJE PEDERSEN

Systkini auðjöfursins Tom Hagen, sem grunaður er um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana, segjast sannfærð um sakleysi bróður síns. Þau hafi enga trú á því að hann hafi myrt Anne-Elisabet, sem þau telja að sé enn á lífi. Málið sé allt hið erfiðasta og segjast þau vona að fólk dæmi ekki bróður þeirra að ósekju.

Hagen var handtekinn í síðustu viku og þar með varð óvæntur vendipunktur í stærsta sakamáli Noregs síðustu ára: hvarfi eiginkonu hans, Anne-Elisabet. Ekkert hefur spurst til hennar síðan hún hvarf af heimili þeirra í Lørenskógi rétt utan við Ósló þann 31. október 2018.

Lögmannsréttur Eidsivaþing vill að Hagen verði sleppt úr gæsluvarðhaldi en það var mat áfrýjunarréttarins í gær að lögreglu skorti rök og gögn til að styðja áframhaldandi veru auðjöfursins í haldi.

Sjá einnig: Konan sem hvarf og hæg­láti auð­jöfurinn sem saknaði hennar

Systkini Hagens, þau Sverre og Vigdis, segjast fylgjast náið með máli bróður síns. Það hafi komið þeim mjög á óvart að hann hafi verið handtekinn vegna málsins og að hann hafi verið ákærður fyrir morð eða hlutdeild í morði. „Ég trúði því ekki að það myndi gerast,“ segir Sverre Hagen í samtali við TV 2.

Í viðtalinu tala þau fyrir hönd 10 eftirlifandi systkina í Hagen-fjölskyldunni og segja þau það mat þeirra allra að Tom geti ekki verið viðriðinn morðið. Þau hafi að sama skapi trú á því að Anne-Elisabeth sé enn á lífi. „Ef ekki þá finnst mér ég hafa brugðist henni,“ segir mágkona hennar Vigdis Hagen.

Lengi vel var talið að Anne-Elisabeth væri í höndum mannræningja sem kröfðust lausnargjalds. Síðasta sumar tilkynnti yfirmaður rannsóknarinnar hins vegar að gengið væri út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt. Henni hefði ekki verið rænt heldur hefði mannránið verið sett á svið til að villa um fyrir lögreglu. Enginn var þó grunaður um aðild að málinu á þeim tímapunkti.

Lögregla hefur áfrýjað fyrrnefndum úrskurði lögmannsréttarins í Eidsivaþing sem þýðir að Hagen verður áfram í varðhaldi þar til að Hæstiréttur landsins hefur tekið málið til meðferðar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.