Erlent

Rússar segjast fyrstir til að taka hljóðfráar eldflaugar í notkun

Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AP/Alexei Nikolsky

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, segir ríkið hafa tekið nýja tegund hljóðfrárra og langdrægra eldflauga í notkun í dag. Fyrsta herdeildin hafi tekið á móti eldflaugunum, sem eru af Avangard-gerð, eftir margra ára rannsókna- og tilraunaferli.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, opinberaði tilvist eldflauganna auk annarra nýrra vopna í fyrra. Þá sagði hann að Avangard gerðu eldflaugavarnir nánast tilgangslausar því þær gætu beygt snögglega af stefnu og komið sér undan öðrum eldflaugum.

Forseinn lýsti tilvist Avangardeldflauga sem tækniframgöngu á við það þegar Sovétríkin skutu fyrsta gervitunglinu á loft árið 1957. Samkvæmt AP fréttaveitunni segir rússneski herinn að þessar eldflaugar fljúgi á 27-földum hljóðhraða.



Pútín sagði þar að auki fyrr í þessari viku að Rússland væri eina ríkið sem hefði tekið hljóðfráar eldflaugar í notkun. Það er þó ekki víst að það sé rétt þar sem Kínverjar hafa lengi unnið að þróun slíkra eldflauga og hafa sýnt þær opinberlega.

Bandaríkin vinna sömuleiðis að þróun hljóðfrárra eldflauga og sömuleiðis að mögulegum leiðum til að granda þeim. Einn valmöguleiki sem hefur verið íhugaður er að koma fyrir neti skynjara og vopna á braut um jörðu. Það net geti svo greint eldflaugaskot og grandað eldflaugunum á leið þeirra upp í gufuhvolfið skömmu eftir flugtak.

Enn eru einhver ár í að Bandaríkin taki hljóðfráar eldflaugar í notkun, samkvæmt ummælum Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Hér að neðan má sjá frétt CNBC um þetta nýja vopnakapphlaup og þar að neðan er myndband sem útskýrir hvernig hljóðfráar eldflaugar virka.


Tengdar fréttir

Kínverjar taka annað flugmóðurskip í notkun

Kínverjar hafa lagt mikið í það að koma upp nútíma flota á undanförnum árum með framleiðslu herskipa, kafbáta og svokallaðra stuðningsskipa. Xi Jinping sagði í fyrra að floti Kína þyrfti að vera af "heimsklassa“.

Drekinn sýnir klærnar

Kínverski herinn sýndi nýjustu vopn sín og í morgun í tilefni af 70 ára afmælis Alþýðulýðveldis Kína.

Bauðst til að selja Trump nýja hljóðfráa eldflaug

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir að Rússar muni framleiða nýjar tegundir eldflauga sem voru áður bannaðar í sáttmála á milli Rússlands og Bandaríkjanna (INF) sem rann út í síðasta mánuði.

Drekinn að ná í stélið á erninum

Undanfarin ár hafa yfirvöld í Kína dælt milljörðum dala í her landsins sem býr nú yfir háþróuðum búnaði og vopnum. Hernaðargeta Kína hefur aukist til muna og eru sum vopn þeirra orðin þróaðri en vopn Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×