Erlent

Auglýsing Trump vekur lukku, reiði og háð

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í sporum Thanos.
Donald Trump í sporum Thanos.

Starfsmenn forsetaframboðs Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, birtu í gær nýja auglýsingu sem hefur vakið mikla athygli. Hún vakti fljótt mikla lukku meðal stuðningsmanna Trump en reiði og háð meðal andstæðinga hans. Í auglýsingunni hefur andlit Trump verið sett á Thanos í atriði úr kvikmyndinni Avengers: Endgame.

Myndbandið sýnir Thanos þar sem hann segist „óumflýjanlegur“ og virðist við það að ná markmiði sínu að þurrka út helming lífs í alheiminum. Því hefur þó verið breytt. Andliti Trump hefur verið komið fyrir á búk Thanos og svo eftir að hann smellir fingrunum er sýnt hvernig leiðtogar Demókrataflokksins verða að ryki.

Myndbandinu fylgja þau skilaboð að endurkjör forsetans sé „óumflýjanlegt“ og ákærur þingsins gagnvart Trump fyrir embættisbrot séu svik.

Margir netverjar hafa gert grín að auglýsingunni og þá sérstaklega með tilliti til þess að þetta tiltekna atriði í kvikmyndinni endar ekki vel fyrir Thanos sjálfan. Hann hefur verið plataður af meðlimum Avengers og nokkrar sekúndur frá því að deyja sjálfur.

Öðrum þykir einkennilegt að bera Trump saman við morðóðan stríðsherra.

Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt auglýsinguna er Jim Starlin, sem bjó persónuna Thanos til við hlið Stan Lee.

Hann skrifaði á Instagram að í fyrstu hefði hann verið miður sín yfir því að „þetta oflátungslega flón“ hafi notað eitthvað sem hann skapaði í þessum tilgangi. Að endingu hafi hann þó séð að leiðtogi Bandaríkjanna njóti þess í rauninni að líkja sér við fjöldamorðingja.

„Þetta eru sorglegir og undarlegir tímar sem við göngum í gegnum. Sem betur fer enda allir hlutir, jafnvel þjóðarmartraðir,“ skrifaði Starlin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×