Erlent

Sérsveitarmenn freista þess að sækja líkin

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðstæður á eyjunni eru erfiðar en sjóðandi heit gufa og leðja gýs úr gígnum og jarðfræðingar segja jarðhræringar hafa aukist.
Aðstæður á eyjunni eru erfiðar en sjóðandi heit gufa og leðja gýs úr gígnum og jarðfræðingar segja jarðhræringar hafa aukist. EPA/ARHT

Átta meðlimir sérsveita herafla Nýja-Sjálands munu freista þess að fara í land á eldfjallaeyjunni Whakaari við fyrstu birtu á morgun, föstudag. Þar munu þeir reyna að finna og ná líkum þeirra átta sem enn er saknað. Minnst sex lík hafa fundist úr lofti.

Aðstæður á eyjunni eru erfiðar en sjóðandi heit gufa og leðja gýs úr gígnum og jarðfræðingar segja jarðhræringar hafa aukist.

Herskipið HMNZS Wellington verður notað til að flytja sérsveitarmennina en á blaðamannafundi í nótt sagi Mike Clement, yfirmaður hjá lögreglunni, að aðgerðin væri alls ekki hættulaus. Allt yrði þó reynt til að ná líkunum af eyjunni.



Auk þeirra átta sem taldir eru vera enn á eyjunni eru átta látnir. Þar að auki er eins til viðbótar saknað. Margir eru alvarlega slasaðir og mjög illa brunnir.

Sjá einnig: Blöðrur og brunasár þökktu líkama allra



Útlit er fyrir rigningu á næstu dögum. Talið er að þegar rignir á öskuna sem þekur eyjuna og líkin, muni hún harðna verulega og gera það mun erfiðara að ná líkunum.

Fjölskyldumeðlimir og ættingjar þeirra sem saknað er hafa síðustu daga þrýst á yfirvöld Nýja-Sjálands og beðið um að fá að fara til Whakaari og sækja lík þeirra. New Zealand Herald segir einn ættingja Tipene Maangi, sem dó á eyjunni, hafa skrifað á samfélagsmiðlum um það hve hræðilegt það væri að þeim væri ekki hleypt á land á Whakaari til að sækja hann.



Þá sendi Mark Inman, bróðir annars sem dó, bréf til Jacinda Ardern, forsætisráðherra landsins, þar sem hann bað um leyfi til að fara á land á eyjunni.

Aðstæður á eyjunni væru þannig að fjölskyldan hefði líklegast ekki lengur möguleika á því að halda jarðarför með opinni kistu. Nú væri útlit fyrir að fjölskyldan gæti ekki einu sinni jarðað lík bróður hans yfir höfuð. Það væri allt vegna hægagangs yfirvalda.

Ástandið á eyjunni er þó langt frá því að vera öruggt, samkvæmt sérfræðingum og hafa líkurnar á öðru eldgosi aukist. Sérsveitarmennirnir sem munu reyna að fara á land munu til dæmis þurfa að klæðast sérstökum verndarbúnaði.


Tengdar fréttir

Jarð­hæringar á Hvítu eyju

Jarðhræringar eru að aukast að nýju á Hvítueyju á Nýja Sjálandi og hafa þær hægt á aðgerðum viðbragðsaðila á eyjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×