Erlent

Jarð­hæringar á Hvítu eyju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hvíta Eyja gaus á mánudag og eru minnst sex látnir.
Hvíta Eyja gaus á mánudag og eru minnst sex látnir. epa/ AUCKLAND RESCUE HELICOPTER TRUST

Jarðhræringar eru að aukast að nýju á Hvítueyju á Nýja Sjálandi og hafa þær hægt á aðgerðum viðbragðsaðila á eyjunni. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Fjallið, sem er einnig þekkt sem Whakaari, gaus á mánudag þegar tugir ferðamanna voru á eyjunni. Staðfest hefur verið að sex manns hafi látist, átta er enn saknað og er talið að þau séu öll látin. Enn eru tuttugu og fimm á sjúkrahúsi með alvarlegra áverka.

Yfirvöld vonuðust til þess að hægt væri að endurheimta lík þeirra sem talin eru látin á eyjunni á miðvikudag. „Ég hef rætt við marga þeirra sem taka þátt í aðgerðunum og þeir bíða óþreyjufullir eftir að komast aftur á eyjuna, þeir vilja flytja ástvini fólks aftur heim,“ sagði Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, í samtali við fréttamenn.

Lögregluyfirvöld segja þó að jarðhræringar á svæðinu geri viðbragðsaðilum það ókleift að fara aftur á eyjuna. „Síðan um klukkan fjögur í morgun hafa jarðhræringar færst verulega í aukana á eyjunni,“ sagði jarðfræðimiðstöðin GeoNet í tilkynningu á miðvikudagsmorgunn.

„Aðstæður eru ótraustar á eyjunni. Enn er líklegt að eyjan gjósi aftur næsta sólarhringinn.“

Lögreglumálaráðherrann Stuart Nash sagði að einnig væru eitraðar gufur á eyjunni sem kæmu frá gígnum og að eyjan væri sveipuð sýrumikilli ösku.

Engin ummerki hafa sést um líf á eyjunni í eftirlitsflugum og yfirvöld telja að enginn þeirra átta sem urðu eftir á eyjunni sé á lífi. Minnst fjörutíu og sjö ferðamenn frá öllum heims hornum voru á Hvítu eyju þegar hún gaus.

Lögreglan hefur einnig greint frá því að af þeim þrjátíu sem slösuðust séu tuttugu og fimm enn í lífshættu. Hinir fimm sem særðust eru illa særðir en ekki lengur í lífshættu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×