Erlent

Jarð­hæringar á Hvítu eyju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hvíta Eyja gaus á mánudag og eru minnst sex látnir.
Hvíta Eyja gaus á mánudag og eru minnst sex látnir. epa/ AUCKLAND RESCUE HELICOPTER TRUST

Jarðhræringar eru að aukast að nýju á Hvítueyju á Nýja Sjálandi og hafa þær hægt á aðgerðum viðbragðsaðila á eyjunni. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Fjallið, sem er einnig þekkt sem Whakaari, gaus á mánudag þegar tugir ferðamanna voru á eyjunni. Staðfest hefur verið að sex manns hafi látist, átta er enn saknað og er talið að þau séu öll látin. Enn eru tuttugu og fimm á sjúkrahúsi með alvarlegra áverka.

Yfirvöld vonuðust til þess að hægt væri að endurheimta lík þeirra sem talin eru látin á eyjunni á miðvikudag. „Ég hef rætt við marga þeirra sem taka þátt í aðgerðunum og þeir bíða óþreyjufullir eftir að komast aftur á eyjuna, þeir vilja flytja ástvini fólks aftur heim,“ sagði Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, í samtali við fréttamenn.

Lögregluyfirvöld segja þó að jarðhræringar á svæðinu geri viðbragðsaðilum það ókleift að fara aftur á eyjuna. „Síðan um klukkan fjögur í morgun hafa jarðhræringar færst verulega í aukana á eyjunni,“ sagði jarðfræðimiðstöðin GeoNet í tilkynningu á miðvikudagsmorgunn.

„Aðstæður eru ótraustar á eyjunni. Enn er líklegt að eyjan gjósi aftur næsta sólarhringinn.“

Lögreglumálaráðherrann Stuart Nash sagði að einnig væru eitraðar gufur á eyjunni sem kæmu frá gígnum og að eyjan væri sveipuð sýrumikilli ösku.

Engin ummerki hafa sést um líf á eyjunni í eftirlitsflugum og yfirvöld telja að enginn þeirra átta sem urðu eftir á eyjunni sé á lífi. Minnst fjörutíu og sjö ferðamenn frá öllum heims hornum voru á Hvítu eyju þegar hún gaus.

Lögreglan hefur einnig greint frá því að af þeim þrjátíu sem slösuðust séu tuttugu og fimm enn í lífshættu. Hinir fimm sem særðust eru illa særðir en ekki lengur í lífshættu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.