Erlent

Dauðadómur Musharrafs markar tímamót í Pakistan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Fyrrverandi einræðisherra Pakistans var dæmdur til dauða í dag. Þar með lauk sex ára löngum málaferlum þar sem hann var sakaður um landráð.

Pervez Musharraf sölsaði undir sig völdin í Pakistan árið 1999 þegar herinn framdi valdarán. Hann var gerður að forseta landsins árið 2001 og gegndi þeirri stöðu þar til 2008. Í embætti var Musharraf mikilvægur bandamaður Bandaríkjamanna í stríði þeirra í Afganistan.

Landráðadómurinn sem nú hefur fallið snýst um atburði nóvembermánaðar árið 2007. Þá lýsti Musharraf yfir neyðarástandi í Pakistan, felldi stjórnarskrá landsins tímabundið úr gildi og lokaði fyrir alla óháða fjölmiðla. Á þessum tíma var Musharraf nýbúinn að ná endurkjöri en hæstiréttur landsins átti eftir að úrskurða um lögmæti kosninganna. Ákvörðuninni var harðlega mótmælt.

Musharraf hrökklaðist frá völdum ári síðar og þegar Nawaz Sharif, sem Musharraf steypti af stóli árið 1999, varð forsætisráðherra árið 2013 hóf hann rannsókn á landráðum síns gamla óvinar.

Lögmaður Musharrafs var skiljanlega ósáttur við dóminn. Sagði hann skýrast af því að andstæðingar forsetans fyrrverandi hafi verið öfundssjúkir vegna árangurs Musharrafs. 

Dómurinn er sagður sögulegur og marka tímamót fyrir Pakistan. Hæstaréttarlögmaðurinn Hamid Khan sagði þetta í fyrsta skipti sem einræðisherra hlýtur dóm.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×