Erlent

Kim lofar Bandaríkjamönnum jólagjöf

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Nú styttist óðfluga í að sá frestur sem Norður-Kóreustjórn gaf Bandaríkjunum til þess að klára viðræður um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans renni út. Einræðisherra Norður-Kóreu lofar jólagjöf, náist ekki samkomulag.

Frost hefur verið í viðræðunum alveg frá því fundi Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, lauk án undirritunar samkomulags í Víetnam í febrúar. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að ná skriði á viðræðurnar á ný en árangurinn hefur enginn verið.

Grundvallarástæðan fyrir því hversu hægt gengur er að Norður-Kórea vill að þvingunum verði aflétt áður en til afvopnunar kemur. Bandaríkin vilja hins vegar sjá árangur í kjarnorkuafvopnun fyrst.

Í vikunni bárust þau skilaboð frá Asíuríkinu að Bandaríkjamenn mættu eiga von á jólagjöf, takist ekki að semja fyrir árslok. Þann frest hefur Norður-Kórea sett og þótt ríkið hafi ekki alltaf staðið við slíkar hótanir telja bæði Suður-Kóreustjórn og Bandaríkin að einræðisstjórninni sé nú alvara. Ekki er útilokað að Norður-Kórea setji aukinn þunga í bæði kjarnorku- og eldflaugatilraunir ef samningar nást ekki.

Kim virtist hins vegar með hugann við annað í dag, ef marka má fréttaflutning norðurkóreska ríkissjónvarpsinss sem sýndi myndir þar sem sjá má Kim og undirmenn hans ferðast á hvítum hestum um Paektu-fjall, sem Norður-Kóreumenn álíta heilagt. Bæði fjallið og hvítu hrossin sem myndirnar sína eru sérstök tákn Kim-ættarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.