Íslenski boltinn

Skoraði fernu á móti Íslandsmeisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir var með 7 mörk og 8 stoðsendingar í Pepsi deild kvenna í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir var með 7 mörk og 8 stoðsendingar í Pepsi deild kvenna í sumar. Vísir/Vilhelm
Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði öll fjögur mörk síns liðs í gær þegar Keflavík vann 4-2 sigur á Íslandsmeisturum Vals í lokaumferð Bose móts kvenna í Reykjaneshöllinni. Nú er bara stóra spurningin hvar þessi átján ára framherji spilar næsta sumar.

Með sigrinum kom Keflavík í veg fyrir að Valskonur tryggðu sér sigur í Bose æfingamótinu en Valsliðið hafði fjögur stig fyrir leikinn eftir stórsigra á FH og KR. FH og KR mætast í lokaleiknum en þurfa stórsigur til að komast upp fyrir Val þar sem þau eru með tvö stig.

Sveindís Jane kom Keflavík í 1-0 í fyrri hálfleik og bætti síðan við þrennu í þeim síðari áður en A-landsliðskonan Fanndís Friðiksdóttir minnkaði muninn með tveimur mörkum í lokin.



Keflavíkurliðið féll úr Pepsi deild kvenna í haust og er búist við því að Sveindís Jane Jónsdóttir myndi finna sér lið í Pepsi deildinni. Hún er farin að banka á dyrnar í A-landsliðinu og þarf væntanlega að spila í efstu deild ætli hún að komast þangað inn.

Það er ljóst að mörg félög hafa örugglega áhuga á því að semja við þessa stórefnilegu unglingalandsliðskonu og ekki minnkaði áhuginn við þessa frammistöðu hennar á móti Íslandsmeisturnum.

„Þetta var frábær leikur hjá okkur og ég verð að viðurkenna að við bjuggumst ekki við að vinna Val í kvöld. Við vorum ákveðnar og ætluðum að standa okkur vel og það tókst heldur betur. Það er gaman að fara inn í jólafríið eftir svona sigur," sagði Sveindís Jane, hetja Keflavíkur í leiknum, í viðtali við fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×