Erlent

Heilaskemmdir fylgi offitu hjá unglingum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Vísindamennirnir notuðu segulómtæki til að rannsaka heila unglinga. Þeir telja að frekari rannsókna sé þó þörf á áhrifum offitu.
Vísindamennirnir notuðu segulómtæki til að rannsaka heila unglinga. Þeir telja að frekari rannsókna sé þó þörf á áhrifum offitu. Nordicphotos/Getty
Vísindamenn hjá Geislafræðisamtökum Norður-Ameríku (RSNA) hafa komist að því að offita valdi heilaskemmdum hjá unglingum og ungmennum. Kom þetta í ljós í nýrri rannsókn þar sem notuð voru segulómtæki.

Offita hefur ekki aðeins áhrif til þyngdaraukningar og á hjarta og æðakerfið, heldur veldur hún bólgum í taugakerfinu. Þetta virðist hafa áhrif á heilann og valda skemmdum þar. Var notuð ný aðferð segulómunar, DTI, til að rannsaka vökva við taugaboðkerfið.

Úrtak rannsóknarinnar var ekki mjög stórt, 59 unglingar í yfirþyngd og 61 ekki í yfirþyngd á aldrinum 12 til 16 ára. Sást munur bæði í hvelatengslunum (corpus callosum) og fellingunum (gyrus). Í engum tilfellum komu of þungu unglingarnir betur út en þeir sem voru það ekki.

„Breytingar í heila þessara unglinga í yfirþyngd sjást í þeim hlutum heilans sem hafa áhrif á matarlyst, tilfinningar og vitsmuni,“ sagði Pamela Bertolazzi, lífeindafræðingur frá Brasilíu sem tók þátt í rannsókninni.

Sagði hún þetta einnig hafa áhrif á hormónastarfsemina, til dæmis leptín. Vegna þess halda unglingarnir áfram að borða þrátt fyrir að fitu- og orkubirgðir líkamans séu nægar. Skemmdirnar í heilanum hafa einnig áhrif á jafnvægi insúlíns og þar af leiðandi blóðsykurs. „Einnig komumst við að því að bólgur í taugakerfinu hafa áhrif á aðra þætti en leptín og insúlín,“ sagði Bertolazzi.

Þá sagði hún einnig að frekari rannsókna væri þörf. Vildi hún að segulómunin yrði endurtekin með sömu einstaklingum eftir að unglingarnir í yfirþyngd hefðu lést. Þá væri hægt að sjá hvort skaðinn væri varanlegur eða ekki.

Offita ungmenna er sívaxandi vandamál. Hefur hlutfall bandarískra barna og ungmenna í yfirþyngd þrefaldast síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Þá hefur offita ungra barna einnig aukist. Samkvæmt tölum frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) voru 32 milljónir barna fimm ára og yngri í yfirþyngd á heimsvísu. Árið 2016 var sú tala komin upp í 41 milljón.

Hér á Íslandi hefur offita einnig farið vaxandi og er mun meiri en á hinum Norðurlöndunum. Í rannsókn sem var gerð við Tækniháskólann í Danmörku (DTU) og birt árið 2017 kom í ljós að 21 prósent Íslendinga glímdi við offitu og tæplega 60 prósent væru í yfirþyngd. Til samanburðar þá glímdu innan við 15 prósent íbúa á hinum Norðurlöndunum við offitu og undir 50 prósentum voru í yfirþyngd.




Tengdar fréttir

Fimmti hver unglingsdrengur á Vestfjörðum er of feitur

Fimmti hver unglingsdrengur á Vestfjörðum er of feitur samkvæmt nýjustu mælingum á ofþyngd íslenskra grunnskólabarna. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir að vestfirsk börn labbi eða hjóli sjaldnar í skólann en jafnaldrar þeirra annars staðar á landinu. Tölurnar komi honum þó á óvart og kallar hann eftir rannsóknum á offitu barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×