Innlent

Segir það bara barnaskap að fá delluna að smíða módel

Kristján Már Unnarsson skrifar
Karl Ragnarsson sýnir módel af Mercedes Benz árgerð 1938.
Karl Ragnarsson sýnir módel af Mercedes Benz árgerð 1938. Stöð 2/Einar Árnason.
Hann smíðar módel af bílum sem hann eignast og skipum sem tengjast sögu sinna heimaslóða, trésmíðameistarinn í Vík í Mýrdal, sem vakið hefur athygli fyrir listilega smíðuð módel af bílum, flugvélum og skipum. Myndir mátti sjá í fréttum Stöðvar 2. 

Við sögðum frá Karli Ragnarssyni í þættinum „Um land allt“ á dögunum en heimili hans í Vík er þakið módelum, sem hann hefur dundað sér við að smíða frá æskuárum.Fyrsti bíllinn sem Karl eignaðist var Austin Gipsy árgerð 1965.Stöð 2/Einar Árnason.
Hann byrjar á því að sýna okkur módel af fyrsta bílnum sem hann átti, Austin Gipsy-jeppa, árgerð 1965.

-Og þá þarftu að smíða þetta?

„Já, já. Það þarf að smíða þetta,“ svarar Karl en bendir okkur svo á gamalt áraskip í næstu hillu.

Svona Land Rover-jeppar voru algengir í sveitum landsins fyrir hálfri öld.Stöð 2/Einar Árnason.
Hann hefur átt marga Mercedes Benz-bíla og smíðað módel af þeim öllum, svo sýnir hann okkur líka gamlan Hitlers-Benz, árgerð 1938. Þegar við snertum módelið áttum við okkur á því að það er smíðað úr tré.

„Þetta er tré,“ segir húsasmíðameistarinn Karl um leið og við bönkum í módelið.

Gullskipið Het Wapen van Amsterdam, sem talið er liggja grafið í Skeiðarársandi.Stöð 2/Einar Árnason.
Hann á módel af bílaskipinu Persier sem strandaði í stríðinu á Kötlutanga, hlaðið hundrað flutningabílum sem Skaftfellingar björguðu í land, og settu síðan saman við Hafursey.

Hann á gullskipið Het Wapen van Amsterdam, sem strandaði á Skeiðarársandi árið 1667 og þýsku seglskútuna Gorch Fock, sem enn siglir.

Þýska seglskútan Gorch Fock.Stöð 2/Einar Árnason.
„Hún hefur oft komið til Reykjavíkur.“

-Og þá færðu bara hugdettu, af því að þú kemur um borð í skipið, þá verður þú að smíða það?

„Já. Búinn að skoða það. Og nú hefur maður tölvuna og getur farið um allan heim og skoðað það.“

Karl Ragnarsson húsasmíðameistari og módelsmiður.Stöð 2/Einar Árnason.
Í loftinu hangir fyrsta breiðþota íslensku flugsögunnar, DC-10, sem Flugleiðir ráku um tíma.

-Hvernig kemur þessi áhugi að smíða módel, er það bara strax í æsku?

„Ætli það sé ekki bara barnaskapur, - að fá svona dellur. Menn verða að hafa einhverjar dellur,“ svarar Karl Ragnarsson.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.