Lífið

„Ég leyfi mér að segja að Vík sé fallegasta þorp á Íslandi“

Kristján Már Unnarsson skrifar
Horft yfir Reynisdranga í átt til Víkur.
Horft yfir Reynisdranga í átt til Víkur. Stöð 2/Einar Árnason.
Mýrdalshreppur stendur frammi fyrir áskorunum með mestu fólksfjölgun á landinu og hæsta hlutfall erlendra íbúa, sem Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri lýsir í í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 næstkomandi mánudagskvöld 18. nóvember, en þar verður Vík í Mýrdal heimsótt.

Litla sveitaþorpið hefur á fáum árum breyst í alþjóðlegan ferðamannabæ. Hótel og veitingastaðir hafa sprottið upp sem og fjölbreytt afþreyingarstarfsemi. Elías Guðmundsson segir frá uppbyggingunni, sem hann hefur staðið fyrir, en hann er orðinn sá umsvifamesti í ferðaþjónustugeiranum í Vík.

Elías Guðmundsson, hótel- og veitingahúsaeigandi í Vík.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Litið verður inn í kaffi hjá öldungaráðinu, hópi eldri borgara, sem hittast reglulega til að kryfja þjóðmálin. Við kynnumst markverðu starfi félagsskaparins Fjörulalla og skoðum listasmíði módelsmiðs. 

Fjórmenningarnir sem reka fyrirtækið Zip-line segja frá línubruninu og svifvængjafluginu og draumi sínum um að gera Vík að ævintýraþorpi Íslands. Við spyrjum einnig hvað hjólabátar, sovéskir hertrukkar og Antonov-flugvél eru að gera í þorpinu.

Daníel Óliver Sveinsson flutti frá Svíþjóð til að stofna súpuveitingastað í Vík.Mynd/Einar Árnason.
„Ég leyfi mér að segja að Vík sé fallegasta þorp á Íslandi,“ segir Daníel Óliver Sveinsson, en hann stofnaði veitingastaðinn The Soup Company í Vík í Mýrdal í fyrra. 

Við heyrum hversvegna Mýrdælingar eru montnir af golfvellinum sínum en þeir segjast spila golf allt árið. 

„Við erum náttúrlega nær Miðjarðarhafinu en restin af landinu,“ segir  Anna Huld Óskarsdóttir, formaður Golfklúbbsins í Vík. 

Þátturinn um Vík er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10, strax að loknum fréttum og Íslandi í dag. Hér má sjá brot úr þættinum:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×