Erlent

Hákarlarnir sagðir reiðubúnir að gefa sig fram

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hákarlarnir svokölluðu sjást hér á mynd. Frá vinstri eru Sacky Shanghala, Tamson Hatukuilipi og James Hatukuilipi.
Hákarlarnir svokölluðu sjást hér á mynd. Frá vinstri eru Sacky Shanghala, Tamson Hatukuilipi og James Hatukuilipi. Vísir/Hafsteinn
Mennirnir sem nefndir hafa verið hákarlarnir í tengslum við umfjöllun um Samherjamálið eru reiðubúnir að gefa sig fram við spillingarlögregluna í Namibíu. Þetta kemur fram í bréfi frá lögmanni þeirra sem namibískir fjölmiðlar greina frá í dag.

Hákarlarnir þrír eru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, James Hatuikulipi og Tamson Fitty Hatuikulipi, frændi James og tengdasonur Bernard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem handtekinn var á dögunum en sleppt úr haldi um helgina.

Í bréfi sem lögmaður þeirra þriggja og manns að nafni Pius Natangwe Mwatelulo sendi til Paulus Noa, yfirmanns spillingarlögreglunnar, er grennslast fyrir um hvort að handtökuskipun á hendur þeirra fjögurra sé enn í gildi. Ef svo sé segir lögmaðurinn að fjórmenningarnir vilji gera ráðstafanir til þess að gefa sig fram við lögreglu.

Þá eru Shanghala og James Hatuikulipi sagðir væntanlegir til Namibíu í dag frá Suður-Afríku. Segir lögmaðurinn að þeir séu ekki í felum líkt og greint hafi verið frá og þeir séu reiðubúnir til samstarfs við lögregu vegna rannsóknar málsins.


Tengdar fréttir

Samherjamálið skref fyrir skref

Samherjaskjölin sem birt voru á vef WikiLeaks í gær, og voru til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi og í dagblaðinu Stundinni, hafa vakið mikla athygli – og gríðarleg viðbrögð í íslensku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×