Erlent

Grænlenska þingið samþykkti fjárveitingu í fyrsta þjóðveginn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lengstu vegi Grænlands til þessa lagði Bandaríkjaher út frá Kangerlussuaq-flugvelli. Volkswagen lengdi síðan vegina fyrir um tuttugu árum til að komast með bíla á Grænlandsjökul til reynsluaksturs.
Lengstu vegi Grænlands til þessa lagði Bandaríkjaher út frá Kangerlussuaq-flugvelli. Volkswagen lengdi síðan vegina fyrir um tuttugu árum til að komast með bíla á Grænlandsjökul til reynsluaksturs. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Grænlenska þingið hefur í fyrsta sinn samþykkt fjárveitingu til þjóðvegagerðar í þessu næsta nágrannalandi Íslands. Fyrsti þjóðvegur Grænlands verður 170 kílómetra langur og lagður milli aðalflugvallar landsins og næst stærsta bæjarins. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

Kangerlussuaq, eða Syðri Straumfjörður, var bandarísk herstöð til ársins 1992. Brúin er yfir jökulfljót sem þar rennur til sjávar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Malarvegirnir sem núna liggja út frá flugvellinum í Kangerlussuaq eru um fimmtíu kílómetra langir og þeir langlengstu á Grænlandi og þar geta menn búist við að sjá sauðnaut í vegkantinum. Aðrir vegir Grænlands ná aðeins fáeina kílómetra út frá stærstu byggðum landsins og engir tveir bæir eru tengdir saman með vegi.

Sauðnaut við Kangerlussuaq. Hreindýr eru einnig algeng á svæðinu, sem státar af fjölskrúðugasta dýralífi Grænlands.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
En núna hefur grænlenska þingið með fjárlögum næsta árs samþykkt fjárveitingu sem nemur 900 milljónum íslenskra króna til að hefjast handa við gerð fyrsta þjóðvegar landsins, milli hafnarbæjarins Sisimiut og Kangerlussuaq-flugvallar, sem áður var þekktur sem Syðri Straumfjörður. Fjármunirnir fara til að skipuleggja og hanna veginn en heildarkostnaður við verkið er talinn verða milli sjö og níu milljarðar króna.

Vegurinn verður um 170 kílómetra langur.Grafík/Stöð 2.
Sisimiut er tæplega sexþúsund manna bær og ráðamenn þar telja að vegurinn opni á fiskflutninga með flugi en leiði einnig til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Þannig skýrði grænlenski fjölmiðillinn Sermitsiaq nýlega frá áhuga íslenska fyrirtækisins Arctic Adventures á því að koma að fjögurra milljarða króna fjárfestingu í ferðaþjónustu á svæðinu að því tilskyldu að vegurinn verði lagður. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.