Erlent

Grænlendingar leggja drög að smíði veglegs þjóðarleikvangs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þjóðarleikvangurinn yrði yfirbyggður með hvolfþaki og stórum útsýnisgluggum, samkvæmt teikningu danska arkitektsins Bjarke Ingels fyrir sveitarfélagið Sermersooq.
Þjóðarleikvangurinn yrði yfirbyggður með hvolfþaki og stórum útsýnisgluggum, samkvæmt teikningu danska arkitektsins Bjarke Ingels fyrir sveitarfélagið Sermersooq. Teikning/Sermersooq, Bjarke Ingels.
Grænlensk stjórnvöld hafa ákveðið að setja starfshóp á laggirnar til að kanna áhuga fjárfesta á að taka þátt í gerð innanhúss þjóðarleikvangs í Nuuk. Hugmyndin er að mannvirkið þjóni jafnt sem íþróttaleikvangur, sýningarhöll og tónleikastaður og verði þannig allt í senn; íþrótta-, viðskipta- og menningarmiðstöð. 

Þetta kemur fram í svari Ane Lone Bagger, ráðherra menningarmála, í tilefni af þingsályktunartillögu sem liggur fyrir grænlenska þinginu um málið, að því er Sermitsiaq greinir frá. Kostnaður við þjóðarleikvanginn er áætlaður á bilinu 5,5 til 9 milljarðar íslenskra króna.

Íþrótta- og sýningarhöllinni er ætlað að verða einkennistákn Nuuk. Hún yrði staðsett á milli nýju hafnarinnar og nýja flugvallarins, skammt frá sundhöll og golfvelli.Teikning/Sermersooq, Bjarke Ingels.
Íþróttaleikvangurinn yrði ekki bara fyrir keppnisfólk og landslið Grænlands heldur vill ráðherrann að hann nýtist börnum og ungmennum sem og öllum almenningi til daglegra íþróttaiðkana. 

Bæjaryfirvöld í Nuuk, sveitarfélaginu Sermersooq, hafa haft forystu um málið og tekið frá lóð miðsvæðis í höfuðstaðnum, skammt frá sundhöllinni, með útsýni yfir höfnina. Fengu þau danska arkitektinn Bjarke Ingels fyrir þremur árum til að teikna íþróttahöllina með það að markmiði að hún yrði einkennistákn Nuuk, rétt eins og óperuhúsið er fyrir borgina Sidney og Eiffel-turninn fyrir Paris.

Hvítt hvolfþakið minnir á þak Laugardalshallar.Mynd/Sermersooq, Bjarke Ingels.
Bjarke Ingels er orðinn eitt stærsta nafn heims á sviði húsahönnunar. Árið 2011 útnefndi Wall Street Journal hann sem frumkvöðul ársins í arkitektúr og árið 2016 komst hann á lista Time Magazine yfir 100 áhrifamestu einstaklinga heims.

Grænland hefur ekki átt knattspyrnulandslið um langt skeið vegna aðstöðuleysis. Ráðherrann Ane Lone Bagger segir að þjóðarleikvangur opni ný tækifæri.

Frá sundhöllinni í Nuuk. Hún var opnuð árið 2003.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Aðild að Evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, myndi þýða að landslið Grænlendinga í knattspyrnu gætu tekið þátt í Evrópukeppninni, og með aðild að Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, gætum við í framtíðinni glaðst yfir landsliðum okkar á HM,“ segir ráðherrann í svari sínu.

Nuuk státar nú þegar af veglegri sundhöll og góðu skíðasvæði, eins og fram kom í þætti Stöðvar 2 árið 2017 um mannlífið þar, sem sjá má hér:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×