Erlent

Óljóst hvor stóð sig betur í fyrstu kappræðunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Boris Johnson og Jeremy Corbyn tókust á í kvöld.
Boris Johnson og Jeremy Corbyn tókust á í kvöld. AP/ITV
Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, tókust á í kvöld í fyrstu kappræðunum í aðdraganda bresku þingkosninganna. Álitsgjafar segja óljóst hvor þeirra hafi haft betur og almenningur virðist sammála.

Brexit, framtíð Skotlands, breska heilbrigðiskerfisins og breska konungsfjölskyldan var á meðal þeirra sem leiðtogarnir tveir tókust á en flokkar þeirra njóta mests fylgis í aðdraganda kosninganna sem haldnar verða 12. desember næstkomandi. Íhaldsflokkurinn leiðir í skoðanakönnunum.

Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lofaði að ljúka útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og skaut á Corbyn með því að segja að forysta hans myndi aðeins leiða til klofnings.

Horfa má á brot af því besta úr kappræðunum hér að neðan.

Corbyn svaraði með því að heita því að Verkamannaflokkurinn myndi leysa Brexit-málin með því að leyfa íbúum Bretlands að hafa lokaorðið um hvernig Brexit yrði til lykta leitt.

Í frétt BBC er haft eftir Lauru Kuenssberg, stjórnmálasérfræðingi fjölmiðilsins, að ekki sé ljóst hvort þeirra hafi borið sigur úr býtum úr kappræðunum. Hún hafi þó tekið eftir því að áhorfendur í sjónvarpssal hafi verið mjög reiðubúnir til þess að hlæja að yfirlýsingum leiðtoganna tveggja.

Skyndiskoðanakönnun YouGov eftir kappræðurnar leiddi í ljós að áhorfendur skiptust í tvennt yfir því hvor þeirra hafi haft betur.

Hér fyrir neðan má sjá kappræðurnar í heild sinni. Þar fyrir neðan má sjá styttri brot úr kappræðunum.


Tengdar fréttir

Clinton gagnrýndi stjórn Johnsons

Hillary Clinton gagnrýndi bresk stjórnvöld harðlega í dag og sagði til skammar að skýrsla um áhrif Rússa á breskar kosningar hafi ekki verið birt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×