Erlent

Segir Brexit hafa verið verstu mistökin frá seinna stríði

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
„Ég tel að Brexit sé stærstu mistök Bretlands í utanríkismálum frá lokum seinni heimsstyrjaldar,“ sagði John Bercow, sem lét nýverið af störfum sem forseti breska þingsins. Hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs en þingkosningar fara fram á Bretlandi þann 12. desember næstkomandi. Á meðan þingmenn stóðu í ströngu í kosningabaráttu í dag lét Bercow gamminn geisa um útgöngumálið.

„Ætti þjóðaratkvæðagreiðslan 2016 að binda hendur Breta? Mitt svar er nei. Hún ætti ekki að gera það. Það ætti vissulega hvorki að vanvirða né hundsa niðurstöðurnar en þær þurfa ekki að vera bindandi,“ sagði Bercow enn fremur.

Íhaldsflokkur Bercows er ekki á sama máli, eða að minnsta kosti ekki Boris Johnson forsætisráðherra. Sagði Bercow aukinheldur að mjótt hafi verið á munum í þjóðaratkvæðagreiðslunni, tæp 52 prósent gegn rúmum 48 og að ekki hafi verið greidd atkvæði um hvernig ætti að ganga út.

Útgöngu hefur verið frestað til 31. janúar í síðasta lagi. Þeir þrír flokkar sem mælst með mest fylgi hafa misjafna stefnu í málinu. Íhaldsflokkurinn, sá langstærsti, vill klára málið, Verkamannaflokkurinn vill þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan útgöngusamning eða að hætta við útgöngu og Frjálslyndir demókratar vilja ekkert Brexit.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×