Enski boltinn

Arsenal býður Xhaka upp á fría sálfræðitíma

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Xhaka gæti misst fyrirliðabandið hjá Arsenal.
Xhaka gæti misst fyrirliðabandið hjá Arsenal. vísir/getty

Það logar allt stafna á milli hjá Arsenal í kjölfar þess að fyrirliði liðsins, Granit Xhaka, brjálaðist er hann var tekinn af velli í leiknum gegn Crystal Palace um síðustu helgi.

Hann sagði þá stuðningsmönnum Arsenal að „Fuck off“ en þeir bauluðu á hann þar sem hann var ekkert að drífa sig af velli. Xhaka fór svo úr treyjunni og strunsaði niður göngin. Þessi hegðun fór verulega í taugarnar á stuðningsmönnum liðsins.

Stjóri liðsins, Unai Emery, segir að fyrirliðinn sé niðurbrotinn yfir þessu öllu.

„Hann er verulega miður sín og í raun í öngum sínum. Honum líður eins og stuðningsmenn félagsins hafi snúið við honum baki,“ sagði Emery sem hefur ekki tekið ákvörðun um hvað hann gerir næst. Arsenal hefur þó boðið fyrirliðanum upp á sálfræðitíma til þess að hjálpa við að lyfta honum upp.

„Hann hagaði sér frábærlega á æfingu í gær en veit samt að hann hafði rangt fyrir sér með því að haga sér svona. Hann finnur fyrir því.“

Stjórinn segir að Xhaka eigi að biðja stuðningsmenn félagsins afsökunar.

„Hann þarf ekki að biðja mig afsökunar því ég veit að hann er miður sín. Hann er þungur og þarf á stuðningi að halda.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.