Enski boltinn

Klopp hótar því að Liverpool neiti að spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Getty/Laurence Griffiths
Liverpool komst í gærkvöldi áfram í átta liða úrslit deildabikarins eftir sigur á Arsenal í ótrúlegum tíu marka leik á Anfield. Eftir leikinn fór Jürgen Klopp að tala um mögulegt skróp sinna manna í næstu umferð.

Liverpool lenti margoft undir í leiknum, þar á meðal 3-1 og 4-2 en ungir leikmenn liðsins neituðu að gefast upp og liðinu tókst að tryggja sér vítakeppni. Liverpool skoraði úr öllum vítum sínum og vann sér sæti í næstu umferð.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, tefldi fram varaliði í leiknum í gær og eftir hann talaði hann um möguleikann á því að mæta ekki í leikinn í átta liða úrslitunum. Breska ríkisútvarpið segir frá.

Það kemur í ljós í dag hverjum Liverpool mætir í átta liða úrslitunum.





Það er mikið að gera hjá Liverpool, ekki síst í desember, þar sem átta liða úrslit enska deildabikarsins eiga að vera spiluð.

Það þekkja allir leikjaálagið í ensku úrvalsdeildinni yfir hátíðirnar en áður en kemur að því þá þarf Liverpool að ferðast til Katar til þess að taka þátt í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Átta liða úrslit enska deildabikarsins eiga að fara fram í vikunni sem byrjar mánudaginn 16. desember.

Liverpool liðið flýgur til Katar 18. desember og þarf að ferðast meira en ellefu þúsund kílómetra fram og til baka til þess að komast þangað. Liverpool spilar tvo leiki í heimsmeistarakeppninni, undanúrslitaleik og svo leik um gullið eða bronsið.

Jürgen Klopp var skýrmæltur eftir leikinn og talaði hreint út eftir sigurinn á Arsenal. „Ef þeir finna ekki nýjan og ásættanlegan tíma fyrir leikinn okkar, ekki klukkan þrjú um nóttina á jóladag, þá munum við ekki spila þennan leik,“ sagði Jürgen Klopp við breska ríkisútvarpið.

„Þú þarft að hugsa um þessa hluti. Ef menn setja leikjadagskrána þannig upp að eitt lið geti ekki spilað alla leikina, þá þurfa menn að hugsa sinn gang. Vonandi byrja menn að gera og vonandi strax núna,“ sagði Klopp.

„Við ætlum ekki að verða fórnarlamb vandamálsins. Við spiluðum þennan leik og vildum vinna. Ef þeir finna ekki betri leiktíma fyrir leikinn í átta liða úrslitunum þá fara mótherjar okkar bara áfram í næstu umferð eða Arsenal fær að spila leikinn,“ sagði Klopp.

Það eru þegar sjö leikir á dagskránni hjá Liverpool í desembermánuði en við það bætist umræddur leikur í átta liða úrslitum deildabikarsins og svo leikur um sæti í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Það á enn eftir að færa einn deildarleik Liverpool vegna ferðarinnar til Katar því liðið átti að mæta West Ham 20. desember.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×