Erlent

Fjórir fá dauða­dóm vegna Marokkó-morðanna

Atli Ísleifsson skrifar
Mennirnir þrír sem myrtu þær Maren Ueland og Louisu Vesterager.
Mennirnir þrír sem myrtu þær Maren Ueland og Louisu Vesterager.

Dómstóll í Marokkó dæmdi í gær fjóra af þeim 24, sem áður höfðu verið fundnir sekir um morð á tveimur norrænum konum í Atlasfjöllum í dsember síðastliðinn, til dauða.

Þrír þeirra höfðu áður játað sök í málinu og verið dæmdir til dauða á lægra dómstigi í sumar, en dómstóllinn þyngdi dóminn yfir einum, úr lífstíðarfangelsi og í dauðadóm.

Khaled Fataoui, lögmaður aðstandenda hinnar dönsku Louisu Vesterager, segir í samtali við NRK að þeir þrír sem dæmdir voru til dauða í sumar vilji að dómnum verði fullnægt. Dauðadómi hefur ekki verið fullnægt í Marokkó frá árinu 1993.

„Þessir þrír sögðust ekki vilja hljóta dóm sem ekki yrði fullnægt,“ sagði Fataoui.

Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust látnar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn. Myndir/Facebook

Fjórði maðurinn, sem hlaut dauðadóm í gær en hafði áður verið dæmdur í lífstíðarfangelsi, var með hinum þremur í Atlasfjöllum en yfirgaf staðinn áður en konurnar voru myrtar.

Vestager og hin norska Maren Ueland, 28 ára, voru saman á bakpokaferðalagi um landið og höfðu tjaldað í hlíðum Toubkal-fjalls í Atlasfjöllum suður af Marrakech. Þær fundust síðan látnar í hlíðum fjallsins mánudaginn 17. desember. Einn ódæðismannanna tók morðin upp á myndband en það fór síðar í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Auk þessara fjögurra manna voru tuttugu menn til viðbótar dæmdir í fangelsi í sumar, frá fimm árum og upp í þrjátíu árum, meðal annars fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum. Allir áfrýjuðu þeir dómunum, en í gær var dómi yfir einum þeirra þyngt í sjö ára fangelsi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.