Enski boltinn

Mark Clattenburg stakk upp í óánægða stuðningsmenn Liverpool: Þetta VAR allt rétt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Clattenburg og svo þeir Divock Origi og Victor Lindelof í baráttunni.
Mark Clattenburg og svo þeir Divock Origi og Victor Lindelof í baráttunni. Samsett/Getty
Mark Clattenburg, fyrrum dómari í ensku úrvalsdeildinni, var sáttur með umdeilda Varsjá í leik Manchester United og Liverpool í gær.

Manchester United komst yfir í leiknum á marki sem Liverpool mönnum fannst aldrei átt að standa vegna meints brots á Divock Origi.

Divock Origi missti boltann á hættulegum stað og Manchester United refsaði með marki eftir skyndisókn.





Liverpool stuðningsmenn sáu Manchester United manninn Victor Lindelof sparka í Origi og vildu frá aukaspyrnu. Stuðningsmenn Manchester United sögðu Belganum aftur á móti að standa í lappirnar og sökuðu hann um leikaraskap.

Mark Clattenburg fór yfir atvikið í pistli sínum í Daily Mail og það er hans mat að markið hafi átt að standa, sem það gerði.

„Átti VAR að dæma mark Manchester United af. Nei. Það var hárrétt að leyfa marki Marcus Rashford að standa. Divock Origi datt eftir tæklingu frá Victor Lindelof en Martin Atkinson var í fullkominni aðstöðu til að sjá þetta,“ skrifaði Mark Clattenburg.

„Martin Atkinson sá atvikið greinilega og leyfði leiknum að halda áfram. Það er hægt að deila um það hvort að það hafi verið brot á Origi og mitt mat er að það var rétt hjá Atkinson að leyfa leiknum að fljóta þarna,“ skrifaði Clattenburg.

Mark Clattenburg var einnig sammála því að dæma mark Sadio Mane af vegna hendi. „Boltinn fer greinilega í hendina á honum og hann græðir á þeirri snertingu. Það var því rétt að dæma markið af,“ skrifaði Clattenburg.

Liverpool náði á endanum að jafna metin skömmu fyrir leikslok en þetta voru fyrstu tvö stigin sem Liverpool liðið tapar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×