Enski boltinn

Fór yfir það á skemmtilegan hátt hvernig Solskjær tókst að loka á Liverpool liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Getty/Samsett
Skemmtileg greining á leik Manchester United og Liverpool sýnir hversu vel Ole Gunnari Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, tókst að loka á leik Liverpool í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool var búið að vinna sautján deildarleiki í röð, Meistaradeildina og Ofurbikarinn, þegar liðið mætti á Old Trafford um helgina. Þar endaði sigurgangan og Liverpool rétt slapp í burtu með eitt stig.

Manchester United tókst að hægja vel á leik Liverpool liðsins og norski stjórinn hitti naglann á höfuðið þegar hann stillti upp sínu liði. Fram að þessum leik var nefnilega ekkert sem leit út fyrir það að United gæti hreinlega strítt Liverpool þótt liðið væri á heimavelli.

Ole Gunnar Solskjær hafði fengið á sig mikla gagnrýni eftir dapurt gengi United liðsins á tímabilinu og eflaust frekar fáir eftir í hans horni meðal stuðningsmanna Manchester United.





YouTuber maðurinn Nouman greindi leikskipulag liðanna og fór á athyglisverðan hátt yfir það hvernig Ole Gunnari tókst að loka á styrkleika Liverpool og skapa lærisveinum Jürgen Klopp vandræði í leiknum.

Þar kom meðal annars fram að United spilaði með vængbakverði til að loka á upphlaup bakvarðanna frábæru Robertson og Alexander-Arnold.

Jafnframt lagði Solskjær áherslu á að framherjaparið héldi sér utarlega á vellinum til að reyna að draga miðvarðarpar Liverpool, Van Dijk og Matip, í sundur.

Andreas Pereira lokaði síðan á Fabinho á miðjunni þegar Manchester United var ekki með boltann.

Allt eru þetta dæmi um hvernig Ole Gunnar Solskjær breytti leikskipulagi síns liðs til að loka á styrkleika Liverpool.

Nú er bara að sjá hvort fleiri andstæðingar Liverpool reyni þetta á næstunni og hvort þá Jürgen Klopp takist að koma með mótleik.

Það var í það minnsta ljóst á öllu að leikur Liverpool var ekki sannfærandi á Old Trafford og liðið ekki líkt sjálfu sér.

Hér fyrir neðan má sjá þessa fróðlegu greiningu hjá umræddum Nouman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×