Enski boltinn

Fór yfir það á skemmtilegan hátt hvernig Solskjær tókst að loka á Liverpool liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Getty/Samsett

Skemmtileg greining á leik Manchester United og Liverpool sýnir hversu vel Ole Gunnari Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, tókst að loka á leik Liverpool í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool var búið að vinna sautján deildarleiki í röð, Meistaradeildina og Ofurbikarinn, þegar liðið mætti á Old Trafford um helgina. Þar endaði sigurgangan og Liverpool rétt slapp í burtu með eitt stig.

Manchester United tókst að hægja vel á leik Liverpool liðsins og norski stjórinn hitti naglann á höfuðið þegar hann stillti upp sínu liði. Fram að þessum leik var nefnilega ekkert sem leit út fyrir það að United gæti hreinlega strítt Liverpool þótt liðið væri á heimavelli.

Ole Gunnar Solskjær hafði fengið á sig mikla gagnrýni eftir dapurt gengi United liðsins á tímabilinu og eflaust frekar fáir eftir í hans horni meðal stuðningsmanna Manchester United.YouTuber maðurinn Nouman greindi leikskipulag liðanna og fór á athyglisverðan hátt yfir það hvernig Ole Gunnari tókst að loka á styrkleika Liverpool og skapa lærisveinum Jürgen Klopp vandræði í leiknum.

Þar kom meðal annars fram að United spilaði með vængbakverði til að loka á upphlaup bakvarðanna frábæru Robertson og Alexander-Arnold.

Jafnframt lagði Solskjær áherslu á að framherjaparið héldi sér utarlega á vellinum til að reyna að draga miðvarðarpar Liverpool, Van Dijk og Matip, í sundur.

Andreas Pereira lokaði síðan á Fabinho á miðjunni þegar Manchester United var ekki með boltann.

Allt eru þetta dæmi um hvernig Ole Gunnar Solskjær breytti leikskipulagi síns liðs til að loka á styrkleika Liverpool.

Nú er bara að sjá hvort fleiri andstæðingar Liverpool reyni þetta á næstunni og hvort þá Jürgen Klopp takist að koma með mótleik.

Það var í það minnsta ljóst á öllu að leikur Liverpool var ekki sannfærandi á Old Trafford og liðið ekki líkt sjálfu sér.

Hér fyrir neðan má sjá þessa fróðlegu greiningu hjá umræddum Nouman.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.