Erlent

Dregur Brexit-frum­varp til baka sam­þykki þingið ekki tíma­á­ætlun

Atli Ísleifsson skrifar
Boris Johnson hefur hótað því að boða til þingkosninga í landinu.
Boris Johnson hefur hótað því að boða til þingkosninga í landinu. AP

Ríkisstjórn Bretlands mun draga Brexit-frumvarp sitt til baka fari svo að þingið samþykki ekki þriggja daga tímaáætlun stjórnarinnar um að koma frumvarpinu um útgöngu úr ESB í gegnum þingið.

Boris Johnson forsætisráðherra greindi þingheimi frá því í dag að ef þingmenn myndu hafna áætlun stjórnarinnar og ESB myndi samþykkja frestun á útgöngu, fram yfir 31. október, myndi hann þrýsta á um að boðað verði til nýrra þingkosninga í landinu.

Johnson sagði að þingið hafi að eigin rammleik komið sér í „sjálfheldu“ og að hann myndi á engan hátt samþykkja fleiri mánuði af þeirri stöðu sem upp er komin.

BBC segir frá því að stjórnarandstæðingar á breska þinginu hafi lýst hótunum Johnson sem „barnalegum kúgunartilburðum“.

Frumvarp stjórnar Johnson um útgöngu var kynnt í gærkvöldi og er það nú til umræðu í breska þinginu. Var það kynnt í kjölfar samkomulags bresku stjórnarinnar og ESB um nýjan útgöngusáttmála. Kosið verður um tímaáætlunina í breska þinginu klukkan 18 að íslenskum tíma í dag.

Johnson hefur ítrekað sagt að hann muni tryggja að Bretland gangi úr ESB þann 31. október, með eða án samnings.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir að hann muni greiða atkvæði gegn tímaáætlun stjórnarinnar. Sagði hún áætlunina fela í sér misnotkun á þinginu og virðingarlausa tilraun til að komast hjá umræðu og ábyrgð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.