Erlent

Skipað að afhenda óritskoðaða skýrslu Muellers

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki ánægður með rannsókn demókrata.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki ánægður með rannsókn demókrata. Vísir/getty
Alríkisdómari staðfesti í dag lögmæti rannsóknar demókrata á því hvort Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi framið embættisbrot. Þá hefur bandaríska dómsmálaráðuneytinu enn fremur verið gert að láta af hendi óritskoðað afrit af rannsóknarskýrslu Roberts Muellers, sérstaks saksóknara.

Með úrskurði dómarans, Beryl Howell, er þannig mikilvægur sigur í höfn fyrir demókrata en svo virðist sem rannsóknin sé ekki háð því að þingsályktunartillaga um hana sé samþykkt með atkvæðagreiðslu í fulltrúadeild þingsins.

Niðurstaðan grefur undan málflutningi Trumps og annarra repúblikana, sem hafa haldið því fram að rannsókn demókrata eigi sér ekki stoð í lögum.

Þá gaf Howell dómsmálaráðuneytinu frest þangað til á miðvikudag til að afhenda óritskoðaða skýrslu Muellers um Rússarannsóknina en hlutar hennar voru afmáðir þegar hún var birt fyrr á árinu. Demókratar hafa óskað eftir skýrslunni í heild, m.a. á grundvelli þess að þar sé að finna upplýsingar um tengsl Pauls Manaforts, fyrrverandi kosningastjóra Trumps, við Úkraínu.

Í frétt Reuters um málið er haft eftir talsmanni dómsmálaráðuneytisins að úrskurður dómarans sé til skoðunar hjá ráðuneytinu.

Alríkisdómarinn Beryl Howell.Vísir/Getty
Trump hefur löngum kallað Rússarannsókn Muellers nornaveiðar sem hafi verið skipulagðar af óvildarmönnum hans. Upphaflega snerist rannsóknin um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem demókratar eru með meirihluta, rannsakar nú hvort Trump hafi framið embættisbrot og misbeitt valdi sínu í samskiptum við úkraínsk stjórnvöld fyrr á þessu ári. Rannsóknin hófst eftir að uppljóstrari innan bandarísku leyniþjónustunnar kvartaði undan mögulegu misferli í símtali Trump og Volodimír Zelenskíj, forseta Úkraínu, sem átti sér stað 25. júlí.


Tengdar fréttir

Háttsettur erindreki segir Trump hafa tengt aðstoð við Úkraínu við rannsókn á pólitískum andstæðingum

William B. Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, greindi rannsakendum sem rannsaka möguleg embættisbrot Donald Trump forseta Bandaríkjanna, frá því í dag að Trump hafi neitað að veita Úkraínu hernaðaraðstoð og að hann hafnað því að funda með forseta Úkraínu í Hvíta húsinu nema hann myndi heita því að rannsaka andstæðinga Trump í bandarískum stjórnmálum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.