Erlent

Rússar áttu við þúsundir lyfjaprófa

Kjartan Kjartansson skrifar
Júrí Ganus er yfirmaður lyfjaeftirlits Rússlands. Forveri hans lést árið 2016.
Júrí Ganus er yfirmaður lyfjaeftirlits Rússlands. Forveri hans lést árið 2016. Vísir/EPA

Yfirmaður lyfjaeftirlits Rússlands viðurkennir að átt hafi verið við þúsundir lyfjaprófa hjá ónefndum fjölda rússneskra íþróttamanna. Alþjóðalyfjaeftirlitið íhuga nú hvort Rússar verði beittir frekari refsingu vegna umfangsmikils lyfjasvindls þeirra.

Gögn voru falin eða þeim breytt til að vernda orðspor og stöður fyrrverandi íþróttamanna sem gegna nú embættum í rússnesku ríkisstjórninni eða í forystu íþróttahreyfingarinnar í landinu, að sögn Júrís Ganus, yfirmanns rússneska lyfjaeftirlitsins. Ummælin lét hann falla í viðtalinu á ráðstefnu í Colorado í Bandaríkjunum á sunnudag, að sögn New York Times.

Rússum var bannað að taka þátt í vetrarólympíuleikunum í fyrra eftir að upp komst um umfangsmikið lyfjasvindl sem rússneska ríkisstjórnin átti aðild að árið 2015. Alþjóðalyfjaeftirlitið (WADA) á að taka ákvörðun innan tveggja vikna um frekari refsingar.

Mögulegt er að Rússum verði vikið úr alþjóðlegum íþróttakeppnum gefi þeir ekki trúverðugar skýringar á því hvers vegna niðurstöður lyfjaprófa hurfu eða var breytt í gagnagrunni sem Rússar afhentu Alþjóðalyfjaeftirlitinu. Þriggja ára keppnisbanni rússneska íþróttamanna var aflétt í fyrr þegar Rússar lofuðu að afhenda gagnagrunninn.

Ganus fullyrti á sunnudag að aðeins einstaklingar með aðgang að valdamestu stofnunum Rússlands hefðu getað átt við gögnin. Hann segist greina frá svikunum nú til að koma í veg fyrir að núverandi og framtíðarkynslóðir rússneskra íþróttamanna líði fyrir gjörðir annarra.

Yfirlýsingar hans þykja koma á óvart í ljósi örlaga uppljóstrara um lyfjasvindlið. Tveir aðrir embættismenn lyfjaeftirlits Rússlands, þar á meðal forveri Ganus, létu lífið við grunsamlegar kringumstæður. Fyrrverandi yfirmaður tilraunastofu í Moskvu þar sem lyfjasvindlið fór fram flúði til Bandaríkjanna eftir að hann greindi frá svindlinu.


Tengdar fréttir

Skora á Ólympínefndina að banna alla Rússa í Ríó

Bandaríska- og kanadíska lyfjaeftirlitið sendu fyrir helgi áskorun með undirskriftum víðsvegar úr heiminum þar sem skorað var á Ólympíunefndina að banna alla rússneska íþróttamenn í Ríó.

FIFA rannsakar lyfjamisnotkun Rússa

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, reynir að hafa uppi á Grigory Rodchenkov til þess að afla upplýsinga um þáttöku rússneskra fótboltamanna í ólöglegri lyfjanotkun í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×