Erlent

Áttatíu slösuðust í átökum í Barcelona

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmæli hafa nú staðið yfir í borginni í þrjá daga.
Mótmæli hafa nú staðið yfir í borginni í þrjá daga. Getty
Til mikilla átaka kom í Barcelona í Katalóníu í nótt og segja spænsk yfirvöld að áttatíu hafi slasast, þar af 46 lögreglumenn.

Mótmæli hafa nú staðið yfir í borginni í þrjá daga en mikil reiði er í Katalóníu vegna dóma sem kveðnir voru upp yfir leiðtogum sjálfstæðissinna í héraðinu. 33 voru handteknir í nótt og fjórir voru í kjölfarið hnepptir í varðhald.

Í morgun voru mótmælendur aftur mættir og lokuðu meðal annars fjölfarinni hraðbraut sem tengir Frakkland og Spán.

Búist er við því að enn bæti í mótmælin um helgina þegar stéttarfélög Katalóníu ætla að taka þátt, en námsmenn hafa verið í miklum meirihluta mótmælenda hingað til.

Quim Torra, forseti héraðsstjórnarinnar, hefur fordæmt allt ofbeldi og segir að því verði að ljúka þegar í stað. Segir hann að ofbeldisseggir, sem ekki tengjast hreyfingu aðskilnaðarsinna, séu með aðgerðum sínum að reyna að koma óorði á baráttu aðskilnaðarsinna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×