Helgi Sigurðsson er nýr þjálfari ÍBV í fótbolta karla. Hann var tilkynntur sem þjálfari félagsins á blaðamannafundi í Eyjum í dag.
Helgi skrifaði undir þriggja ára samning við ÍBV.
Síðustu þrjú ár hefur hann verið stjóri Fylkis. Hann kom liðinu upp í efstu deild á sínu fyrsta tímabili og náði að halda Árbæingum uppi síðustu tvö ár.
Fylkismenn ákváðu að skipta um þjálfara eftir tímabilið og á enn eftir að koma í ljós hver tekur við Fylki. Helgi er hins vegar farinn til Eyja.
ÍBV féll úr Pepsi Max deildinni í haust og mun Helgi því stýra liðinu í Inkassodeildinni næsta sumar.

