Erlent

Rýma for­seta­höllina vegna elds­neytis­mót­mæla

Atli Ísleifsson skrifar
Breytingar á eldsneytissköttum hafa vakið einna mesta reiði meðal landsmanna, en verðið hefur hækkað um allt að 120 prósent.
Breytingar á eldsneytissköttum hafa vakið einna mesta reiði meðal landsmanna, en verðið hefur hækkað um allt að 120 prósent. AP
Búið er að rýma forsetahöllina í Ekvador og hafa ráðherrar flúið höfuðborgina Quito. Búist er við að þúsundir muni halda til höfuðborgarinnar á morgun til að mótmæla ríkisstjórn landsins og hækkun eldsneytisverðs.

Mótmæli hafa staðið í landinu frá 3. október þegar ríkisstjórnin greindi frá umbótatillögum sem unnar hafa verið í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Er markmið aðgerðanna að draga úr fjárlagahalla og skuldum ríkissjóðs.

Breytingar á eldsneytissköttum hafa vakið einna mesta reiði meðal landsmanna, en verðið hefur hækkað um allt að 120 prósent. Mætmælin eru þau mestu í landinu í tíu ár.

AP
Mótmælendur hafa kveikt í bíldekkjum og lokað vegum út úr höfuðborginni. Þá hafa verið unnin skemmdarverk á opinberum byggingum og hafa hluti mótmælenda kastað eldsprengjum og grjóti í átt að lögreglu. Að sögn BBC er á sjötta tug lögreglumanna haldið í gíslingu víðs vegar um landið.

EFE greinir frá því að ráðherrar hafi margir flúið höfuðborgina og starfi nú í borginni Guayaquil, um 400 kílómetrum frá höfuðborginni.

Það sem af er mótmælaaðgerðum hefur einn látið lífið og 77 særst. Flestir hinna særðu eru lögreglumenn.

Alls hafa um fimm hundruð manns verið handteknir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.