Umfjöllun: Fylkir - Breiðablik 1-5 | Stórsigur dugði Blikum ekki

Axel Örn Sæmundsson skrifar
vísir/daníel
Fylkir og Breiðablik mættust í lokaumferð Pepsi-max deild kvenna árið 2019. Fyrir leik voru Blikakonur ennþá í smá séns á að vinna deildina en þá þurftu þær að sigra sinn leik og treysta á að Keflavík myndi vinna Val í síðasta leiknum á Hlíðarenda.Blikakonur byrjuðu leikinn frábærlega og náðu að koma inn tveimur mörkum á fyrstu átta mínútum leiksins. Fyrsta mark leiksins skoraði Karolína Lea eftir gott spil Blikana. Berglind Björg skoraði svo annað mark leiksins þegar að Kristín Dís setti boltann aftur fyrir varnarlínu Fylkis og Berglind var fyrst til að ná boltanum og klára vel í hornið.Berglind Björg náði að skora sitt annað mark í leiknum rétt fyrir hálfleik. Blikarnir eiga horn og það myndast eitthvað klafs í teignum. Það kemur skot á markið sem Brigita í marki Fylkis ver í slánna og út og þar stendur Berglind Björg og ýtir boltanum yfir línuna. 0-3 í hálfleik fyrir Blikastúlkur sem litu gríðarlega vel út.Fylkisliðið kom örlítið sprækara út í seinni hálfleikinn og reyndu að sækja á gestina frá Kópavogi og náðu að skapa sér nokkur færi. Það var þó á 60.mínútu leiksins þegar að Ásta Eir Árnadóttir ber boltann upp hægri kant Breiðabliks og á fyrirgjöf á Alexöndru Jóhannssdóttur sem skallar boltann í mark Fylkis og kom þeim í 4-0. Á 70.mínútu þá skoraði Sæunn Rós Ríkharðsdóttir stórkostlegt mark fyrir Fylki með langskoti utan af velli. Staðan orðin 4-1 fyrir gestunum. Fljótlega eftir að Fylkiskonur skoruðu markið þá svöruðu Blikarnir fyrir það og þar var engin önnur en Berglind Björg Þorvaldsdóttir á ferðinni og skoraði þar með sitt þriðja mark og varð markadrottning í Pepsi-Max deildinni fyrir vikið. Það var einstefna allan tímann og Fylkiskonur heppnar að tapa þessum leik ekki stærra en 1-5.Lokaniðurstaðan var þó sú að Valskonur unnu Keflavík 3-2 á heimavelli og Blikastúlkur sátu þá eftir með sárt ennið og lentu í 2.sæti deildarinnar þrátt fyrir það að hafa ekki tapað einum leik á tímabilinu. Fylkiskonur enduðu í 6.sæti með 22 stig sem er fínn árangur fyrir nýliða í deildinni.

Þorsteinn Halldórssonvísir/bára
Þorsteinn: Valur voru bara betri en við

„Ég var ánægður með leikinn, vorum miklu betri og sköpuðum fullt af færum svo ég er sáttur með það. Það er erfitt að segjast vera svekktur, auðvitað vill maður vinna og allt það en svekkelsið er ekki í dag.“ sagði Þorsteinn þjálfari Breiðabliks eftir 5-1 sigur gegn Fylki í dag.Þorsteinn var ánægður með tímabilið og lítið að svekkja sig á því að hafa ekki unnið titilinn þar sem að liðið tapaði ekki leik í sumar og stóð sig frábærlega.„Valur voru bara betri en við heilt yfir. Fengu fleiri stig og skoruðu meira þannig ég óska bara Val til hamingju með sigurinn. Þær áttu þetta bara skilið“Valur vann tæpan sigur á Keflavík 3-2 sem tryggði þeim titilinn aðspurður hvort hann hefði verið að fylgjast með hinum leiknum sagði hann„Nei ég heyrði stöðuna í hinum leiknum á 85.mínútu, það eina sem við vorum að hugsa um var að vinna okkar leik og ekkert annað.“Tímabilið hjá Blikum er ekki búið þar sem að þær halda núna út að keppa gegn Sparta Praq en þær unnu fyrri leik þessara liða 3-2 á heimavelli.„Bara vel, ég ætla að vona að það verða allar klárar í leikinn. Við förum inní leikinn til þess að slá þær út og ætlum okkur áfram.“

Kjartan Stefánsson er þjálfari Fylkis
Kjartan: Við ætlum að einbeita okkur að því að byggja þetta félag upp kvennamegin

„Mér líður bara ágætlega. Við fáum of mörg mörk á okkur en við skoðum sumarið í heild sinni þá er þetta bara ansi gott.“ sagði Kjartan Stefánsson þjálfari Fylkis eftir 1-5 tap í dag gegn Breiðablik. Fylkir átti gott tímabil miðað við það að vera nýliðar í deildinni og Kjartan var heilt yfir ánægður með sumarið.„Við náðum flugi um sumarið og tókum 5 leiki í röð og það er pirrandi að hafa ekki náð að bæta einhverju ofan á það.“Blikarnir skoruðu 2 mörk á fyrstu átta mínútum leiksins sem gerði út um hann strax.„Það var klárlega einbeitingaskortur til að byrja með og smá svona gamalt syndrome á okkar liði en svo lagaðist þetta aðeins eftir þessar fyrstu 10 mínútur. En við verðum bara að horfa í næsta ár núna og vonandi nær þessi leikur að skila einhverju til leikmannanna sem verða á næsta ári hjá okkur“Planið hjá Fylki á næstu árum er mjög einfalt en liðið þarf að byrja á því að verða stöðugt lið í efstu deild kvenna og byggja svo ofan á það.„Við ætlum að einbeita okkur að því að byggja þetta félag upp kvennamegin en það eru tvö áberandi góð lið á landinu í dag en það eru ungir og efnilegir leikmenn að koma upp hjá félaginu sem við þurfum að halda í og ná að vinna með.“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir raðaði inn mörkunum í sumarvísir/bára
Berglind Björg: Þetta er bara ógeðslega pirrandi ef ég á að vera hreinskilin

„Þetta er bara ógeðslega pirrandi ef ég á að vera hreinskilin. Mér fannst við spila heilt yfir flott í sumar og ég er mjög stolt af þessu liði þannig það er pirrandi að geta ekki unnið þennan titil“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir eftir 5-1 sigur gegn Fylki í dag.Valur endaði mótið sem Íslandsmeistarar en báðir leikir Vals og Blika enduðu með jafntefli. Það má því segja að þeir leikir hafi skemmt vonir Blika um að vinna titilinn þetta árið.„Já í rauninni og svo jafnteflið á móti Þór/KA. Það er okkar klúður að klára ekki þá leiki þannig að við fengum það í bakið.Eins og áður kom fram halda Blikastelpur út að keppa gegn Sparta Praq og virðast allir vera mjög spenntir fyrir þeim leik.„Bara ótrúlega vel. Við erum mjög spenntar að fara út og vinna þennan leik, við förum út og erum fullar af sjálfstrausti“Berglind skoraði þrennu í dag og tryggði sér þar með markadrottningar titilinn árið 2019 með 16 mörk í 17 leikjum. En hún var mjög svekkt að hafa ekki náð að hampa Íslandsmeistaratitlinum.„Það er mjög leiðinlegt, fyrst og fremst vill maður vinna titilinn og þessi skór er bara algjör bónus.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.