Erlent

Lýðflokkurinn stendur uppi sem sigurvegari

Andri Eysteinsson skrifar
Kurz veifar stuðningsmönnnum Lýðflokksins
Kurz veifar stuðningsmönnnum Lýðflokksins Getty/Sean Gallup
Lýðflokkur Sebastian Kurz, fyrrverandi kanslara Austurríkis, hlýtur flest atkvæði í austurrísku þingkosningunum sem fram fóru í dag. Þegar nær öll atkvæði hafa verið talin hefur Lýðflokkurinn hlotið 37% og bætir því við sig fylgi frá síðustu kosningum árið 2017. Þá hlaut flokkurinn 31% atkvæða. BBC greinir frá.

Kosið er í skugga hneykslismáls en boðað var til kosninganna eftir að ríkisstjórn landsins féll í maí síðastliðnum þegar myndband af varakanslaranum, Heinz-Christian Strache, birtist. Í myndbandinu sést Strache lofa konu, sem þóttist vera dóttir rússnesks áhrifamanns, samningum við austurríska ríkið. Hneykslið hefur verið nefnt „Ibiza-gate“ í Austurríki þar sem myndbandið var tekið upp á spænsku eyjunni.

Í kjölfarið féll ríkisstjórn Lýðflokksins og Frelsisflokks Strache og var Kurz settur af eftir að vantrauststillaga var samþykkt.

Niðurstöður kosninganna þegar nær öll atkvæði hafa verið talin eru á þá leið að Lýðflokkurinn er stærstur með 37% fylgi. Sósíal-demókratar fá 22% fylgi. Frelsisflokkurinn missir fylgi frá síðustu kosningum og fær 16% atkvæða. Minni flokkar sem ná inn á þing eru Græningjar með rúmlega 14% fylgi og frjálslyndi flokkurinn Neos með um 7%.

Nú munu fara í hönd stjórnarmyndunarviðræður. Ferlið er talið munu verða langt og strangt en ýmsir möguleikar eru í stöðunni fyrir Kurz. Endurnýjað samstarf Frelsisflokksins og Lýðflokksins er mögulegt en hugsast getur að eftir skandalinn vilji Kurz leita annað.

Þá hefur þriggja flokka samstarf milli Lýðflokksins, Græningja og Neos, verið nefnt. Leiðtogi Græningja, Werner Kogler, hefur þó greint frá því að samkomulag náist einungis ef Lýðflokkurinn dregur verulega úr hægri sinnuðum stefnum sínum.


Tengdar fréttir

Lýstu yfir vantrausti við kanslara Austurríkis

Þing Austurríkis hefur samþykkt vantrauststillögu gegn Sebastian Kurz, kanslara og formanns Þjóðarflokksins, vegna hneykslis Heinz-Christian Strachce, fyrrverandi varakanslara og leiðtoga Frelsisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×