Erlent

Útgönguspár benda til sigurs Kurz og Lýðflokksins

Andri Eysteinsson skrifar
Kurz á leið til kjörstaðar í dag.
Kurz á leið til kjörstaðar í dag. Getty/Michael Gruber
Talið er næsta víst að Lýðflokkurinn, flokkur fyrrverandi kanslara Austurríkis Sebastian Kurz, hafi borið sigur úr býtum í austurrísku þingkosningunum sem fram fóru í dag. Í fyrstu útgönguspám er gert ráð fyrir því að spár gangi eftir og að flokkur Kurz hljóti 37% greiddra atkvæða. BBC greinir frá.

Kosið er í skugga hneykslismáls en boðað var til kosninganna eftir að ríkisstjórn landsins féll í maí síðastliðnum þegar myndband af varakanslaranum, Heinz-Christian Strache, birtist. Í myndbandinu sést Strache lofa konu, sem þóttist vera dóttir rússnesks áhrifamanns, samningum við austurríska ríkið. Hneykslið hefur verið nefnt „Ibiza-gate“ í Austurríki þar sem myndbandið var tekið upp á spænsku eyjunni.

Í kjölfarið féll ríkisstjórnin og var Kurz settur af eftir að vantrauststillaga var samþykkt.

Samkvæmt útgönguspám fær Lýðflokkurinn 37% greiddra atkvæða, eins og áður sagði, og þarf því að leita til annarra flokka og mynda samsteypustjórn. Frelsisflokkurinn, flokkur Strache, er talinn hljóta 17% atkvæða og er talið mögulegt að Kurz leiti að nýju til sinna gömlu félaga.

Þá telja spekingar ytra að möguleiki sé á samstarfi Lýðflokksins, Græningja (13,1%) og frjálslyndra (7,8%). Þá þykja engar líkur vera á samstarfi Kurz og sósíal-demókrata sem hljóta 22,5% og verða næst stærsti þingflokkurinn gangi útgönguspár eftir.

Búist er við löngum og strembnum stjórnarmyndunarviðræðum í Austurríki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×