Enski boltinn

Unglingastarf Chelsea farið að bera ávöxt

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lampard með Tammy Abraham.
Lampard með Tammy Abraham. Nordicphotos/getty
Eftir að hafa fengið skell í fyrsta leik tímabilsins hefur leiðin legið upp á við hjá lærisveinum Frank Lampard í Chelsea. Liðið gerði góða ferð á Molineux-völlinn um helgina, ári eftir að hafa tapað gegn Úlfunum, en í ár var það Chelsea sem hafði 5-2 sigur þar sem Úlfarnir náðu að laga stöðuna undir lokin þegar sigur Chelsea var í höfn.

Það var ljóst þegar Lampard tók við liði Chelsea að hann fengi lausan tauminn fyrsta árið. Félagsskiptabannið gerði það að verkum að Lampard fékk ekki að smíða liðið eftir eigin höfði með aðstoð félagsskiptamarkaðsins og þurfti hann því að leita í innviði félagsins. Undanfarin ár hefur Chelsea verið með eitt af fremstu unglingaliðum heims en leikmenn hafa átt erfitt með að brjóta sér leið inn í aðalliðið.

Félagið hefur ítrekað sótt leikmenn dýrum dómum með það að markmiði efla sóknarleikinn sem hefur skilað félaginu góðum árangri undanfarin ár á kostnað þess að ungir leikmenn fengju tækifæri en í ár hafa yngri leikmenn liðsins notið traustsins.

Sú ákvörðun virðist ætla að borga sig því eftir fimm leiki hefur Chelsea skorað ellefu mörk og öll mörkin komið frá leikmönnum sem komu upp úr unglingastarfi félagsins. Tammy Abraham setti þrjú um helgina og er kominn með sjö mörk eftir fimm umferðir, Mason Mount er kominn með þrjú og Fikayo Tomori braut ísinn um helgina.

Abraham var búinn að sýna það að hann kynni að skora mörk á láni í Championship-deildinni með Aston Villa og Bristol á meðan hann beið eftir tækifærinu hjá Chelsea. Það eru miklar kröfur gerðar til framherja Chelsea og virðist hann ætla að standast þær.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.