Erlent

Fullyrða að árásirnar hafi verið gerðar frá Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Olíuverð hækkaði um allt að 20% í kjölfar árásanna í Sádi-Arabíu en hækkunin hefur síðan gengið til baka.
Olíuverð hækkaði um allt að 20% í kjölfar árásanna í Sádi-Arabíu en hækkunin hefur síðan gengið til baka. Vísir/EPA
Bandarískir embættismenn segjast hafa staðsett uppruna loftárása á sádiarabískar olíulindir um helgina í sunnanverðu Íran við norðanverðan Persaflóa. Loftvarnir Sáda hafi ekki stöðvað dróna og flugskeyti sem var skotið þaðan því þeim sé beint til suðurs til að koma í veg fyrir árás frá Jemen.Tvær af stærstu olíulindum Sáda urðu fyrir loftárásum á laugardag. Uppreisnarmenn Húta í Jemen, sem eiga í stríði við bandalagsher undir forystu Sáda, lýstu yfir ábyrgð á árásunum en bandarísk stjórnvöld sökuðu strax Írani um að standa að þeim. Stjórnvöld í Teheran hafna því alfarið.Breska ríkisútvarpið BBC vitnar í fréttir CBS-sjónvarpsstöðvarinnar sem hefur eftir bandarískum embættismönnum að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós að drónarnir og flugskeytin hafi komið frá sunnanverðu Íran.Bandarík stjórnvöld hafa aðstoðað Sáda við að rannsaka leifar flugskeyta sem var skotið á olíulindirnar um helgina. New York Times segir að þeir vonist til þess að stýrikerfi þeirra varpi ljósi á uppruna þeirra og flugleið.Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sjálfur hikað við að kenna Írönum beint um árásina. Hann hefur gefið í skyn að Bandaríkin muni koma Sádum til aðstoðar í mögulegum viðbrögðum þeirra við árásunum.Spurður að því í gær hvort hann hefði lofað Sádum vernd neitaði Trump því og sagði það vera samkomulagsmál. Sádar vilji vernd en árásin hafi beinst að Sádi-Arabíu en ekki Bandaríkjunum.Lýsti Trump þó þeirri skoðun sinni að Bandaríkin ættu að koma Sádum til aðstoðar vegna þess hversu mikið þeir hefðu fjárfest vestanhafs undanfarin ár og skapað mörg störf„Sádi-Arabía greiðir í reiðufé. Þeir hafa hjálpað okkur út frá störfum og öllum hinum hlutunum og þeir hafa í raun hjálpað okkur,“ sagði Trump og bar Sáda þar saman við ónefndar aðrar þjóðir sem hann sagði aðeins vilja fá hagstæð lán frá Bandaríkjunum.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Gefur lítið fyrir viðræður við Trump

Ali Khamenei, leiðtogi Íran, segir ekki koma til greina að opna viðræður við Bandaríkin. Mögulega væri hægt að ræða við Bandaríkin í samfloti við önnur ríki, ef Bandaríkin gangi aftur að kjarnorkusamkomulaginu svokallaða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.