Erlent

Grunaður skattsvikari og fræðimaður áfram í seinni umferð forsetakosninga í Túnis

Andri Eysteinsson skrifar
Niðurstöður fyrri umferðar voru kynntar í dag.
Niðurstöður fyrri umferðar voru kynntar í dag. Getty/NurPhoto
Ljóst er hvaða tveir frambjóðendur munu taka þátt í seinni umferð túnisku forsetakosninganna sem fara líklega fram um miðjan næsta mánuð. AP greinir frá.

Auðjöfurinn Nabil Karoui, sem þessa dagana situr í fangelsi vegna gruns um skattsvik og peningaþvætti verður ásamt lagaprófessornum Kais Saied á atkvæðaseðlinum í október.

26 voru í framboði en auk Karoui og Saied voru tveir fyrrum forsætisráðherrar í framboði. Karoui hlaut 18,4% greiddra atkvæða en Saied hlaut 15,6%. Frambjóðandi stærsta þingflokks landsins, Abdelfattah Mourou hlaut 12,9% greiddra atkvæða. Kjörsókn var lág eða um 49%.

Nabil Karoui er einn stofnanda Nessma TV fjölmiðlasamsteypunnar en hann situr eins og áður segir í fangelsi vegna gruns um skattsvik og peningaþvætti. Karoui neitar ásökunum og segist vera fórnarlamb ófrægingarherferðar. Lögfræðiteymi hans vinnur nú hörðum höndum við að leysa hann úr haldi fyrir kjördag.

Saied er lagaprófessor sem talinn er vera mjög íhaldssamur í skoðunum, hann vill þó ekki kenna sig við neinn flokk eða stefnu og flokkar sig sem sjálfstæðan frambjóðanda.

Hann hefur greint frá því að hann telji sig ekki eiga í kosningabaráttu við einn né neinn og segir Túnisa mega kjósa hvern þann sem þeim sýnist.

Kosningarnar eru aðrar forsetakosningarnar í ríkinu frá því að leiðtoganum Ben Ali var steypt af stóli í arabíska vorinu árið 2011. Beji Caid Essebsi var áður forseti landsins en hann lést 25. Júlí síðastliðinn, 92 ára að aldri.


Tengdar fréttir

Forseti Túnis látinn

Essebsi forseti var lagður inn á sjúkrahús í gær. Hann var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Túnis og elsti sitjandi forseti heims.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.