Erlent

Forseti Túnis fluttur alvarlega veikur á sjúkrahús

Kjartan Kjartansson skrifar
Essebsi, aldinn forseti Túnis, liggur nú milli heims og helju á sjúkrahúsi.
Essebsi, aldinn forseti Túnis, liggur nú milli heims og helju á sjúkrahúsi. Vísir/EPA
Beji Caid Essebsi, forseti Túnis, var fluttur á hersjúkrahús vegna „alvarlegs heilsuneyðarástands“ í dag. Skrifstofa hans neitar fréttum fjölmiðla um að hann sé látinn. Tvær sjálfsmorðsárásir voru gerðar í höfuðborginni í dag.

Essebsi er níræður og var einnig lagður inn í sjúkrahús í síðustu viku. Þá voru veikindi hans ekki sögð alvarleg. Nú segir einn ráðgjafa hans við Reuters-fréttastofuna að hann sé í mjög alvarlegu ástandi.

Dregið hefur verið úr völdum embættis forseta Túnis eftir að Zine El-Abidine Ben Ali var steypt af stóli árið 2011. Essebsi hefur leikið lykilhlutverk í að koma á lýðræði í landinu án mikilla blóðsúthellinga. Hann var forsætisráðherra í bráðabirgðaríkisstjórn árið 2011 og var kjörinn forseti þremur árum síðar.

Essebsi hafði þegar tilkynnt að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram til endurkjörs í kosningum á þessu ári þrátt fyrir að flokkur hans hefði hvatt hann til þess. Forsetinn sinnir fyrst og fremst utanríkis- og varnarmálum.

Einn lögreglumaður féll og nokkrir aðrir særðust þegar sjálfsmorðsárásarmenn sprengdu sig í loft upp í höfuðborginni Túnis í dag. Stjórnarherinn hefur glímt við uppreisnarhópa í afskekktum byggðum nærri landamærunum að Alsír undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×