Erlent

Segja brakið sanna að Íran hafi staðið að baki árásunum

Eiður Þór Árnason skrifar
Frá blaðamannafundi varnarmálaráðuneytisins í dag.
Frá blaðamannafundi varnarmálaráðuneytisins í dag. Vísir/AP

Varnarmálaráðuneyti Sádi-Arabíu segir að brak drónanna og eldflauganna sem skotið var á Abqaiq olíuvinnslustöðina þar í landi staðfesti að Íranir séu á bakvið árásirnar. Er því haldið fram að meðal þess sem fundist hafi í brakinu væri vængur af írönskum dróna, og að gögn sem á þeim hafi fundist bendi til þess að um íranska dróna sé að ræða. Stjórnvöld í Íran hafa áður hafnað öllum ásökunum um þátttöku sína í árásunum.

Árásirnar sem áttu sér stað um síðustu helgi drógu verulega úr olíuframleiðslu í Sádi-Arabíu og hefur leitt til hækkunar á olíuverði á mörkuðum. Árásin á Abqaiq olíuvinnslustöðina, sem er sögð vera sú stærsta í heimi, lamaði framleiðslu hennar og kynti undir spennu á svæðinu. Einnig var gerð árás á Khurais olíulindirnar.

Hútar, sem eiga í stríði við bandalagsher undir forystu Sáda í Jemen, hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum. Bandarísk stjórnvöld hafa aftur á móti sakað Írani um að standa að baki þeim og Sádar sömuleiðis. Því hafa stjórnvöld í Teheran alfarið hafnað.

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu halda því nú fram að sönnunargögn sanni þátttöku Írana. Col Turki al-Malki, talsmaður varnarmálaráðuneytis Sádi-Arabíu, sagði að að drónarnir átján og eldflaugarnar sjö sem notaðar voru í árásunum hafi komið úr átt sem útiloki að þær hafi átt uppruna sinn í Jemen líkt og Hútar hafi haldið fram.

Yfirvöldum hefur þó ekki enn tekist að staðfesta að vopnunum hafi verið skotið frá Íran.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.