Erlent

Olíuframleiðsla í Sádi-Arabíu dregst saman eftir drónaárásir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Olíuframleiðsla í Sádi-Arabíu hefur dregist verulega saman í dag eftir drónaárásir á tvær af stærstu olíuframleiðslustöðvar landsins. Stöðvarnar eru í eigu ríkisfyrirtækisins Aramco, en hinir jemensku Húta-uppreisnarmenn hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildamanni að árásirnar hafi valdið því að olíuframleiðsla hafi dregist saman um fimm milljónir tunna á dag, en það er um helmingur þess sem Sádi-Arabía flytur út á degi hverjum.

Talsmaður Húta-uppreisnarmannanna segir að tíu drónar hafi verið notaðir til verksins. Yfirvöld hafa náð tökum á eldum sem kviknað hafa í kjölfarið en ekki liggja fyrir upplýsingar um manntjón eða skemmdir vegna árásanna.

Aramco er stærsta olíuvinnslufyrirtæki heims og stærri stöðin sem ráðist var á framleiðir um eitt prósent allra olíubirgða heims. Gætu truflanir í framleiðslu haft áhrif á framboð og verðmyndun á olíu á heimsmarkaði.

Hútar hafa lýst því yfir að von gæti verið á fleiri árásum en Sádar leiða fjölþjóðlega hersveit sem berst gegn samtökunum í Jemen.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.