Erlent

Nemendur Hong Kong skrópa á fyrsta skóladegi

Samúel Karl Ólason skrifar
Skipuleggjendur mótmæla segja um tíu þúsund nemendur í um 200 skólum ekki hafa mætt í tíma.
Skipuleggjendur mótmæla segja um tíu þúsund nemendur í um 200 skólum ekki hafa mætt í tíma. AP/Kin Cheung
Námsmenn í Hong Kong sem mótmælt hafa alræðistilburðum Kínverja í borginni skrópuðu í skólanum í morgun á fyrsta degi nýs skólaárs og héldu mótmælastöðu sinni áfram eftir víðtæk mótmæli um helgina þar sem kom til harðra átaka víða. Óeirðalögregla borgarinnar kom sér víða fyrir í morgun við lestarstöðvar borgarinnar og stúdentarnir reyndu að stöðva ferðir lestanna eða seinka þeim.

Skipuleggjendur mótmæla segja um tíu þúsund nemendur í um 200 skólum ekki hafa mætt í tíma.

Mótmælin hafa nú staðið yfir í fjórtán vikur en BBC segir ofbeldi vegna þeirra hafa náð hámarki nú um helgina. Mótmælendur hafi meðal annars kveikt elda og kastað bensínsprengjum og lögregluþjónar hafi beitt táragasi, gúmmíkúlum, vatnsfallbyssum og skotið viðvörunarskotum að mótmælendum.



Upprunalega hófust mótmælin vegna lagafrumvarps sem hefði heimilt framsal fólks frá Hong Kong til meginlands Kína. Það frumvarp var fellt niður en mótmælin sneru þá að allsherjar endurbótum á lýðræði í Hong Kong.

Kínverskir fréttamiðlar voru afar harðorðir í garð mótmælendanna í kjölfar atburða helgarinnar og í leiðara hjá ríkisfréttastöðinni Xinhua eru mótmælendurnir varaðir við því að endalokin nálgist óðfluga hjá þeim sem reyni nú að ógna Hong Kong.



CNN segir að þrátt fyrir að stjórnmálaleiðtogar Hong Kong hafi kallað eftir viðræðum, þvertaki þeir fyrir að semja við mótmælendur á nokkurn hátt. Skilaboðin frá yfirvöldum virðist vera á þá leið að mótmælendur eigi að hætta mótmælum eða hart verði tekið á þeim. Þrátt fyrir það sé engan beilbug að finna á mótmælendum.


Tengdar fréttir

Virtu bannið að vettugi og mótmæltu harkalega

Þrátt fyrir að fréttir hafi borist af því að mótmælum helgarinnar í Hong Kong hafi verið aflýst, þar sem ekki fékkst leyfi til mótmæla, flykktust mótmælendur út á götur borgarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×