Erlent

Virtu bannið að vettugi og mótmæltu harkalega

Andri Eysteinsson skrifar
Lögregla sprautaði litarefni á mótmælendur.
Lögregla sprautaði litarefni á mótmælendur. AP/Vincent Yu
Þrátt fyrir að fréttir hafi borist af því að mótmælum helgarinnar í Hong Kong hafi verið aflýst, þar sem ekki fékkst leyfi til mótmæla, flykktust mótmælendur út á götur borgarinnar í dag. Mótmælendur hafa mótmælt síðustu tólf helgar en mótmælin þessa helgina marka það að fimm ár séu liðin frá því að íbúar Hong Kong mótmæltu afskiptum Kína af kosningum í sjálfstjórnarhéraðinu. AP greinir frá.

Sjá einnig: Mótmælum helgarinnar í Hong Kong aflýst

Mikill hiti færðist í mótmælin í dag en mótmælendur beittu bensínsprengjum, eldi og leysigeislum gegn óeirðalögreglunni. Mótmælendur stöfluðu saman víggirðingum og mynduðum vegg sem seinna var kveikt í. Áður höfðu mótmælendur kastað bensínsprengjum yfir girðingar við byggingar ríkisstjórnarinnar. Lögreglan svaraði með táragasi og vatnsbyssum sem nýlega hafa verið teknar í notkun.

Lögreglan bryddaði upp á þeirri nýjung að sprauta litarefni á mótmælendur. Slíkt er þekkt á meðal óeirðalögreglu og er ætlað að auðvelda það að bera kennsl á mótmælendur seinna meir.

Lýðræðisflokksþingmaðurinn Lam Cheuk-ting sagði að íbúar Hong Kong myndu halda áfram að berjast fyrir réttindum og frelsi þeirra, þrátt fyrir að fjöldi skipuleggjenda mótmælanna hafi verið handteknir síðustu daga.

Mótmælin hófst fyrr á árinu í tengslum við umdeilt framsalsfrumvarp sem ríkisstjórnin reyndi að koma í gegn. Nú hefur stjórnin dregið til baka áform sín en mótmælin halda áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×