Erlent

Kom á óvart að ríkisstjórn Boris Johnson skyldi missa meirihluta sinn

Margrét Helga Erlingsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Vísir/Hanna
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir það hafa komið á óvart að ríkisstjórn Íhaldsflokksins undir forystu Boris Johnson skyldi missa eins manns meirihluta sinn á þinginu í dag er Phillip Lee gekk til liðs við Frjálslynda demókrata.

Hins vegar sé búist við því að Johnson muni tapa atkvæðaumgreiðslu um það hvort hann geti tekið Breta úr Evrópusambandinu án samnings.

„Þá hefur hann hótað að boða til þingkosninga í Bretlandi 14. október. Hins vegar þurfa tveir þriðju þingmanna að styðja tillögu forsætisráðherra um þingrof og kosningar. Verkamannaflokkurinn, sem vill kosningar, neitar að styðja kosningar nema það sé tryggt fyrir fram að ekki verði gengið úr Evrópusambandinu án samnings meðan á kosningabaráttunni stendur,“ segir Baldur í samtali við fréttastofu.

Þá bendir hann á að þó nokkrir þingmenn Íhaldsflokksins hafi lýst því yfir að þeir ætli að styðja tillögu þingmanna Verkamannaflokksins um það að forsætisráðherrann geti ekki tekið Bretland úr Evrópusambandinu án þess að samningur liggi fyrir.

Þingmönnunum blöskrar yfirgangur Johnson

Lee sendi frá sér harðorða yfirlýsingu eftir úrsögn sína úr Íhaldsflokknum í dag. Sakaði hann meðal annars ríkisstjórn Johnson um beita siðlausum aðferðum til þess að knýja fram Brexit sem verði skaðlegt þjóðinni.

Baldur segir að stór orð séu látin falla í breskum stjórnmálum þessa dagana.

„Mörgum þingmönnum Íhaldsflokksins finnst yfirgangssemi forsætisráðherrans vera það mikil að þeir ætla að láta reyna á það hvort hann stendur við hótun sína að reka þá alla úr flokknum sem ekki munu styðja hann á þinginu,“ segir Baldur.

Hann segir að ef það verði samþykkt á þinginu að Bretland megi ekki ganga úr ESB án samnings og ekki næst meirihluti á þinginu fyrir kosningum þá þurfi að mynda nýja ríkisstjórn.

„Því núverandi stjórn er fallin og þá gæti hugsanlega stjórnarandstaðan tekið við ef hún finnur einhvern sem hún getur sameinast um. Corbyn er of umdeildur til þess að stjórnarandstaðan geti sameinast um hann sem forsætisráðherra,“ segir Baldur.


Tengdar fréttir

Kosningar gætu blasað við á Bretlandi

Forsætisráðherrann er sagður ræða af alvöru um að boða til kosninga strax í haust verði ríkisstjórnin undir á þingi í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×