Íslenski boltinn

Segir að dómarinn hafi sagt leikmönnum Fylkis „að halda kjafti og hætta þessu væli“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kjartan Stefánsson á hliðarlínunni fyrr í sumar.
Kjartan Stefánsson á hliðarlínunni fyrr í sumar. vísir/bára
Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, lét athyglisverð ummæli falla eftir að Fylkir tapaði 1-0 gegn Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í gær.

Eina mark leiksins skoraði Hólmfríður Magnúsdóttir strax á 3. mínútu en Fylkir er í fimmta sæti deildarinnar með 22 stig. Selfoss er í þriðja sætinu með 28 stig.

Hin ungi og efnilegi markvörður Fylkis, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, var send í sturtu eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald í síðari hálfleik.

Kjartan vandaði dómara leiksins, Atla Hauk Arnarssyni ekki kveðjurnar, og sagði að hann hafi svarað stelpunum með fullum hálsi. Kjartan greinir frá þessu í samtali við Morgunblaðið.

„Ég held bara að stelpurnar hafi verið gríðarlega ósáttar við dómarann og það vorum við líka. Þær voru ósáttar við hvernig hann svaraði þeim; sagði þeim að halda kjafti og hætta þessu væli og slíkt. Ég ætla ekki að segja neitt meira en stelpurnar voru gríðarlega ósáttar,“ sagði Kjartan.

„En eigum við ekki bara að segja að það sé gott að hafa góð samskipti manna á milli? Mér fannst hann dæma þetta ágætlega, en rétt eins og ég og aðrir þá þurfum við að haga okkur og segja fallega hluti,“ sagði Kjartan að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.