Erlent

Fjarvera Katrínar vekur athygli heimsmiðlanna

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, verður ekki viðstödd þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur til landsins.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, verður ekki viðstödd þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur til landsins. Mynd/samsett
Ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur um að sækja norræna verkalýðsráðstefnu í Svíþjóð í stað þess að taka á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, þegar hann kemur til Íslands í byrjun september hefur vakið athygli heimsmiðlanna.

Miðlar á borð við Washington Post, Associated Press, NPR, Aftenposten, New Zealand Herald, Russia today og La Vangardia greina frá því að Katrín muni ekki vera viðstödd þegar varaforsetinn kemur til landsins.

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær kom fram í máli Katrínar að vera hennar á verkalýðsráðstefnunni hafi verið ákveðin fyrir löngu og að erfitt að samræma dagsetningar.

Í sumum miðlanna kemur fram að það sé fordæmalaust að forsætisráðherra Íslands taki ekki á móti jafn áhrifamiklum ráðamanni og varaforseta Bandaríkjanna.

Aðrir telja Katrínu með þessu sýna samstöðu með Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, sem á nú í deilum við Donald Trump forseta Bandaríkjanna vegna hugmynda hans um að Bandaríkin kaupi Grænland. Það verður þó að teljast tæpt þar sem heimsókn Pence og ákvörðun Katrínar um að vera í Svíþjóð var tekin áður en Grænlandsmálið kom upp.

Sumir miðlanna telja Katrínu viljandi hundsa Pence til að friða grasrót Vinstri Grænna sem sé á móti aðild Íslands í NATO og efins varnarsamstarf með Bandaríkjunum.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Fjarveran gagnrýnd hér heima

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir fjarveru Katrínar ámælisverða háttsemi gagnvart íslensku þjóðinni.

„Ræða á fundi norrænna verkalýðsfélaga á að sjálfsögðu að víkja fyrir þeim skuldbindingum sem slíku heimboði fylgir. Í fjarverunni eru því fólgin formleg skilaboð,“ segir Þorsteinn í pistli á Hringbraut.

„En með fjarveru sinni er forsætisráðherra líka að senda efnisleg skilaboð. Þau skaða gestinn lítið en veikja því meir málefnalega stöðu Íslands. Og það er sú háttsemi sem er ámælisverð.“

Ekki sé um kurteisisheimsókn að ræða. 

„Hún er til vitnis um alveg nýjan áhuga Bandaríkjanna á að ræða við ríkisstjórn Íslands um afar mikilvæg efni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.