Innlent

Hafnar því að upplýsingagjöf sé ekki nægjanleg til utanríkismálanefndar um fund hans við varaforseta Bandaríkjanna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra ætlar ekki ætla að greina í smáatriðum frá þeim málefnum sem rædd verða á fundinum
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra ætlar ekki ætla að greina í smáatriðum frá þeim málefnum sem rædd verða á fundinum Mynd/Skjáskot
Utanríkisráðherra hafnar því að upplýsingagjöf sé ekki nægjanleg til utanríkismálanefndar um fund hans við varaforseta Bandaríkjanna. Hann segist þó ekki ætla að greina í smáatriðum frá þeim málefnum sem rædd verða á fundinum. Formaður Samfylkingarinnar dregur í efa að áhersla verði lögð á efnahags- og viðskipamál og telur líklegt að hernaðarlegt mikilvægi Íslands verði ofarlega á baugi.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna er væntanlegur til landsins þann fjórða september. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur greint frá því að á fundinum verði fyrst og fremst rætt um efnahags- og viðskiptamál.

Í tilkynningu á vef Hvíta Hússins kemur fram að auk efnahags- og viðskiptamála muni varaforsetinn ræða hernaðarlegt mikilvægi Íslands.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur að koma varaforsetans geti tengst fyrirhugaðri uppbyggingu varnarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli. Hann vill að utanríkisráðherra greini frá því hvað muni fara fram þeirra á milli, þar sem hann dregur í efa að fyrst og fremst verði efnahags- og viðskiptamál rædd.

„Aldrei mun ég koma fram með tæmandi lista yfir hvað ég ætla að ræða þegar ég hitti fulltrúa erlendra ríkja. Hann þarf ekkert að draga það í efa. Undirbúningur hefur verið lengi hvað þessa hluti varðar, meðal annars með aðkomu íslenskra og bandarískra fyrirtækja þannig það mun ekki fara fram hjá neinum. En auðvitað munum við ræða ef það verður tækifæri til margt fleira hvort sem það eru öryggis- og varnarmál sem við ræðum alltaf eða norðurskautsmál eða mannréttindamál eða hvað eina og það er enginn tæmandi listi í því,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

„Þingið, utanríkismálanefnd á að vera með í ráðum þegar kemur að meiriháttar málum á sviði utanríkismála og það er alveg sjálfsagt já að hann segi rétt og greinilega frá hvað fer fram á fundinum,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

„Það er bara sjálfsagt eins og ég hef gert fram til þess að ræða við utanríkismálanefnd um einstaka þætti utanríkisstefnunnar og það hefur aldrei staðið á mér hvað það varðar og ég held að enginn geti haldið því fram að upplýsingagjöf til utanríkismálanefndar hafi ekki verið góð,“ sagði Guðlaugur Þór.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×